143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:24]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvörin. Ég ætla ekki að gera lítið úr tilfinningu hv. þingmanns fyrir kjósendum sínum. Ég þekki vel af eigin raun hvernig lífsreynslusögur fólks berast manni á ferðum um kjördæmið og á þeim byggjum við auðvitað okkar pólitísku sýn og pólitísku hugsjónir, þ.e. á reynslu okkar og þekkingu á raunverulegum aðstæðum fólks í kjördæmunum.

Hins vegar eru þessar tillögur almennar, eins og lýst hefur verið mjög ítarlega, þó að deila megi um hversu almennar þær eru. Þeim er ætlað að fara jafnt yfir alla og til þess að geta gert svoleiðis er eiginlega nauðsynlegt að byggja á einhvers konar almennri greiningu, hafa til grundvallar greiningu á samsetningu — (Gripið fram í: … á bls. 17.) nei, greiningin á bls. 17 í frumvarpinu er nefnilega ekki nógu góð. Ég er búinn að fara yfir það í ræðu minni hvað vantar upp á hana. Það hefði þurft að vera almenn greining á skuldasamsetningu heimilanna sem lægi til grundvallar þessum aðgerðum. Hún liggur ekki fyrir. Það var ekki ráðist í þessa greiningu á undan, það er byggt á pólitísku brjóstviti. Eins mikla virðingu og ég ber fyrir pólitísku brjóstviti og hef skilning á því breytir það því ekki að þegar í svona stórar aðgerðir er ráðist verður að byggja á einhverju aðeins meira.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru aðeins 27% ánægð með aðgerðirnar, rétt um fjórðungur. Það er auðvitað spurning sem má ræða af hverju það stafar miðað við þær þúsundir sem hv. þingmaður taldi sig hafa rætt við.

Hvað varðar kímnigáfu okkar þingmanna á vinstri væng fyrir vanda fólks deili ég því auðvitað ekki. Vandi fólks er það sem fólk telur sinn vanda vera og ég ætla alls ekki að gera lítið úr því. (Forseti hringir.) Ef einhver telur það vanda sinn að þurfa að lita hár sitt sjálfur er það vandi sem þarf auðvitað að takast á við. (Forseti hringir.) En þetta er kjarninn í upprisu millistéttarinnar sem Framsókn lofaði (Forseti hringir.) og er vissulega að standa við.