143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr með hvaða hætti væri hægt að skilgreina þá hópa betur sem ættu að fá einhvers konar niðurfellingu. Ég er í sjálfu sér ekki með neina patentlausn á því en fyrsta skrefið í þá átt gæti verið að greina betur þann hóp sem á að fara í leiðréttingar hjá og þá kannski sérstaklega horfa til þess hvort hópurinn er í greiðsluvanda. Eins og margoft hefur komið fram í máli hv. þingmanna hér í dag verður skuldavandi ekki skuldavandi fyrr en hann er orðinn greiðsluvandi. Fyrr eru menn ekkert í vandræðum með skuldirnar sínar.

Varðandi síðan spurningu hv. þingmanns um þessi fimm þúsund heimili sem munu ekki njóta í neinu þessara ráðstafana vegna þess að þau fóru í 110%-leiðina eða einhverjar aðrar aðgerðir — nei, ég minnist þess ekki að hafa heyrt þingmenn stjórnarflokkanna ræða sérstaklega í kosningabaráttunni að það væri búið að hjálpa því fólki nóg. Þvert á móti var talað hátt og skýrt um að það væri alls ekki búið að gera nóg fyrir þennan hóp, (Gripið fram í: Ekki búið að gera neitt.) nánast sagt að það væri ekki neitt.

Hins vegar hefur komið fram í umræðunni í dag, a.m.k. hjá þingmönnum Framsóknarflokksins, lof á þær aðgerðir sem þá var farið í. Alltént einn hv. þingmaður hrósaði áðan 110%-leiðinni og sagði að hún hefði verið frábær fyrir suma.

Það er gott að menn eru að átta sig á þessu vegna þess að það gæti verið upptakturinn að því að þeir reyndu að breyta (Forseti hringir.) þessum aðgerðum þannig að það væri meiri skynsemi í þeim.