143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu sem að miklu leyti fjallaði ekki um frumvarpið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þess vegna fjallar þetta frumvarp ekki um leigjendur, ekki um þá sem eru í búsetuúrræðum og ekki um námsmenn.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á að starfshópur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra er að fara heildstætt yfir búsetuúrræði, þar á meðal leigjenda. Mönnum er vel kunnugt um vanda leigjenda og það er verið að skoða fasteignamarkaðinn að öðru leyti en þessu heilt yfir til að finna út hvað hægt sé að gera til úrbóta. Eins og allir vita erum við framsóknarmenn til dæmis sérstakir áhugamenn um byggingarsamvinnufélög, teljum þau mjög vænlegt úrræði fyrir fólk sem hefur lítil efni.

Ég þakka líka hv. þingmanni kærlega fyrir að fara í hring í ræðunni sinni á mjög eftirminnilegan hátt þar sem hann þakkaði stjórnarþingmönnum fyrir að hrósa 110%-leiðinni um leið og hann gagnrýndi hana harðlega sjálfur. Ég ætla svo sem ekkert að deila þeirri skoðun með þingmanninum að 110%-leiðin hafi brugðist mjög mörgum, eins og hann talar um núna, en bara svo það sé skýrt er í þessu frumvarpi leitast við að bæta þeim hópi sem ekki hafði fengið neina leiðréttingu áður sinn skaða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist svo rangt við að taka hér fram þann hóp sem enga leiðréttingu hafði áður fengið og reyna að bæta ástand hans með einhverjum hætti.