143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það eru engin átök um það í þessum sal að við erum að ræða skuldaleiðréttingar sem svo eru kallaðar, afskriftir skulda heimilanna, frumvarp sem lagt er fram af fjármálaráðherra. Það er kallað framsóknarhlutinn af skuldaniðurfellingum. Það er enginn vafi á því og enginn að amast við því.

Fólk hefur hins vegar velt fyrir sér og rætt hér í dag hvort til sé til eitthvað sem heitir skuldavandi ef fólk á ekki í vandræðum með að greiða af lánunum. Ég er þeirrar skoðunar að ef fólk sem skuldar mikið getur greitt af lánunum sé það ekki í neinum vanda.

Það er verið að ræða hvort þetta sé sanngjörn útdeiling á peningum. Á það er bent að fólk sem ræður vel við að greiða af lánunum sínum fær peninga. Gerir þingmaðurinn athugasemdir við að það sé rætt?

Finnst þingmanninum það liggja í augum uppi að fyrsta greiðsla fari inn á þennan svokallaða greiðslujöfnunarreikning þar sem fólk fékk þetta greiðslujöfnunarúrræði á sínum tíma? Nú kemur allt í einu í ljós að það á að greiða fyrstu greiðslu af þessum (Forseti hringir.) peningum inn á slíkan reikning þannig að það getur vel verið að greiðslubyrði fólks breytist ekki neitt. (Forseti hringir.) Finnst þingmanninum það sanngjarnt?