143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:15]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir. Ég er líka ánægð með að hún tekur undir það hvaða mál við erum að ræða hér. Það er sannarlega ánægjulegt.

Við getum vissulega rætt það lengi í hvað peningar eiga að fara. Út á það ganga almennt stjórnmál að það eru skiptar skoðanir á því hvernig við ætlum að útdeila því fé sem við tökum með sköttum. Við tókumst meðal annars á um það sl. vor og þar kom niðurstaða í málið. Fólkið hafnaði þeirri leið sem hv. þingmaður og hennar flokkur lagði fram og þess vegna erum við búin að ræða það. Nú erum við að framfylgja því sem við lofuðum, að við kæmum til móts við heimilin við að greiða niður skuldir á þessum verðtryggðu lánum. Við það erum við að standa, hv. þingmaður.

Sannarlega mundi ég vilja takast á um það undir öðrum formerkjum í hvað almennt við ætluðum okkur að ráðstafa fjármunum. Það var þó alveg ljóst þegar við settum á bankaskattinn í desember í hvað hann ætti að fara. Það var tengt saman þannig að þingmenn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það hver ætlun okkar var.