143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:21]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að fá svona skemmtilegt andsvar og þakka ég þingmanninum fyrir það. Í ræðu minni í dag, svo ég komi að því sem hann endaði á, með móðuharðindin kom mér ótrúlega mikið í opna skjöldu að á þessu hörmungaári, sem búið er að kenna okkur hvað var mikil misskipting, voru þó margir Íslendingar, bændur og prestar, sem keyptu sér fíkjur, gullhringa og saffrankrydd. Ég segi bara: Við vorum það fámenn þjóð þá að þetta spurðist út og það voru ýmsir sem kunnu að krydda með saffran og nota ólífuolíu. Mér kom þetta gjörsamlega í opna skjöldu.

Stundum vilja menn halda þessu aðgreindu. Ég hef einmitt viljað tala um að við séum með frumvarp sem við skulum ræða, skuldaleiðréttingu sem heitir leiðrétting á fasteignaveðlánum. Mörgum finnst hér einum of mikið verið að gera og of mikið fyrir suma, en við vildum hafa þetta heildaraðgerð, almenna aðgerð, og settum þó þak á. Það fær enginn meira en 4 millj. kr. Ég vil halda því til haga. (Gripið fram í.)

Þetta var skemmtilegt andsvar og ég ætla ekki að gera lítið úr því að neyð manna hafi verið mikil á þessum hörmungaárum þó að nokkuð margir hefðu haft það betra á þeim tíma en ég hefði haldið. (Gripið fram í.) Hér hafa orðið ýmis harðindi en við höfum oft unnið okkur úr erfiðleikunum og það er það sem við framsóknarmenn viljum gera. Við ætlum að vinna okkur út úr þessari kreppu sem hér varð.