143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:51]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sína ræðu. Ég spurði einmitt um forsætisráðherra í ræðu minni undir liðnum um störf þingsins fyrr í dag. Ég get staðfest við hv. þingmann að hann hefur ekkert sést, hvorki í dag né í gær. Á því er ég fyrst og fremst hissa rétt eins og hv. þingmaður. Ég get líka nefnt að í mínu kjördæmi þar sem hann tók sér bólstað fyrir síðustu kosningar, ég veit ekki alveg hvort hann bjó þar, sást hann heldur ekki mikið á opnum fundum og þótti mér það miður. Þetta er aðalatriðið, mér þykir það mjög miður vegna þess að hér er auðvitað um að ræða helsta talsmann þessa alls.

Tilfellið er að brúðarmundur framsóknarmaddömunnar er ekki kominn fram. Vandinn er að hann er óljós og mun hafa óviss áhrif á efnahagslífið eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Þá spyr ég hv. þingmann hvort hann geti ekki bara glaðst yfir því að þetta voru þó aðeins 25% efndir af því sem talað var um.