143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:53]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir athugasemdir hans. Ég vil biðja hann um eina staðfestingu. Ef verðtryggðar skuldir heimilanna 1. desember í fyrra voru 1.257 milljarðar, og ef það á að leiðrétta um samtals 20%, eins og hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir hélt fram, gerir það 264 milljarða samkvæmt mínum bókum. En bæði frumvörpin, um séreignarsparnaðinn og þetta frumvarp, eru upp á 150 milljarða. Eitthvað vantar þarna. (SigrM: … þingmaðurinn út úr fyrir mér.) Nei, það var talað um — en þá gerði ég það vafalítið. Kannski hv. þm. Helgi Hjörvar staðfesti þessa reikninga mína.

Hitt er síðan að komið hefur fram í umræðunni að svigrúmið sem mögulega gæti skapast við uppgjör bankanna og uppgjör þrotabúa þeirra sé allt upp í 800 milljarða. Það er því margt sem við eigum í vændum, sýnist mér. Getur hv. þingmaður hjálpað mér að skilja hvað við gætum mögulega átt í vændum miðað við uppgjör þrotabúa bankanna?