143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég sé svona sæmilegur í hugarreikningi og ég held að tölurnar sem hv. þingmaður var að fara með séu einfaldlega kolrangar. Þó að ríkisstjórnin hafi veifað 150 milljörðum þá er það ekki framlag ríkissjóðs til skuldamála heimilanna. Hér er verið að opna 70 milljarða heimild fyrir fólk til úttekta úr ríkissjóði. Það þýðir að ríkissjóður er væntanlega að gefa eftir 25% af þeirri fjárhæð kannski 17,5 milljarða að hámarki í séreignarhlutanum og leggja síðan 72 milljarða í þessari aðgerð í skuldamálin, þ.e. samanlagt um 90 milljarða. Það eru 5% af heildarskuldum heimilanna sem eru 1.920 milljarðar um síðustu áramót. Það skiptir því engu máli hvernig hv. þingmaður reynir að reikna, hann kemst aldrei upp í tveggja stafa prósentutölu. Ég er hins vegar alveg fullviss um að hv. þingmaður talaði við kjósendur um tveggja stafa prósentutölu þegar hann var að tala um þann mikla forsendubrest sem heimilin hefðu orðið fyrir enda urðu þau fyrir forsendubresti sem var sannarlega miklu meiri en 5%, hvort sem það er af verðtryggðum skuldum heimilanna eða óverðtryggðum.