143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við hefðum 300 milljarða í hendi frá hrægömmunum væri út af fyrir sig hægt að gera einhverja almenna leiðréttingu hjá öllum sem skulda. Það sem stjórnarflokkarnir eru að horfast í augu við er að það fé er ekki í hendi. Við höfum úr miklu minna fé að spila. Þess vegna er það einfaldlega bara rangt að nota þetta miklu minna fé til að leiðrétta almennt allar skuldir hjá öllum nema skuldsettustu heimilum. Það á að fara þveröfugt að þegar maður hefur úr minna að spila en maður hugði. Ráðstafa ætti þeim fjármunum sérstaklega til þeirra sem verst urðu úti. Það hefur lengi verið sannfæring mín að þeir sem verst urðu úti voru einkanlega þeir sem keyptu á árunum 2004–2008 og þess vegna ætti að leggja meiri áherslu á þann hóp og síðan að rétta hlut leigjenda sem sannarlega fóru illa út úr þeim forsendubresti sem varð í hruninu. Það væru þær áherslur sem ég mundi leggja ef ég væri enn í efnahags- og viðskiptanefnd.