143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Stórt er spurt. Að sjálfsögðu voru loforðin mjög misjöfn fyrir síðustu kosningar. Vinstri grænir voru sérstaklega ábyrgir fyrir síðustu kosningar, þeir mega alveg eiga það og kannski misstu þeir eitthvað af atkvæðum vegna þess. Ég held að það sem hafi kannski helst orðið til þess að fólk breytti hegðun sinni sé örvænting. Ég ætla ekki að fordæma það fólk. Það er örvænting sem rekur fólk út í slíkt.

Eftir hrunið var talað um 20%-leiðina sem hefði verið möguleiki að fara í áður en farið var í það að endurreisa bankana. Það var flókið. Ég veit ekki hvort það hefði verið rétta leiðin frekar en sú leið sem átti að fara 100% með 300 millj. kr. eða 200 millj. kr. eða 100 millj kr. frá kröfuhöfum. Ég sakna þess að kröfuhafarnir séu ekki látnir sæta þeirri ábyrgð sem þeir eiga að sæta.