143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir skemmtilega ræðu, myndlíkingarnar og allt. Ég var ekki ósáttur við þær og skildi þær ágætlega.

Mig langar að beina nokkrum spurningum til hv. þingmanns. Í fyrsta lagi: Telur þingmaðurinn vera eðlismun á því hvernig 80 milljörðum af skattfé er varið, eins og hér er verið að tala um, eða ef um væri að ræða sambærilega fjárhæð sem kæmi frá svokölluðum hrægömmum sem a.m.k. sumum stjórnarþingmönnum var tíðrætt um í aðdraganda síðustu kosninga? Og telur þingmaðurinn að fjármunirnir frá hrægömmunum séu í hendi?

Í öðru lagi langar mig til að inna þingmanninn eftir því hvort hún sé hlynnt almennum aðgerðum eins og þessum sem flytja fjármuni til hátekjufólks og stóreignafólks?