143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Nú get ég ekki lesið huga sjálfstæðismanna. Það er einn sjálfstæðismaður hér í hliðarsal og vonast ég til þess að hv. þingmaður veiti okkur þá ánægju að gefa okkur tækifæri til að heyra meira af honum í andsvörum síðar. Ég held að það verði mjög athyglisvert að fylgjast með hvernig þetta mál þróast í hv. efnahags- og viðskiptanefnd af því að ekki er meiri hluti í nefndinni fyrir málinu eins og það er, eins og það er lagt fram á Alþingi. Það er dálítið sérstakt og heyrir til tíðinda að mínu mati.

Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins Pétur H. Blöndal og Vilhjálm Bjarnason því að þetta er svolítið sérstakt, eins og ég hef sagt áður. Ekki er ég þjökuð af þingreynslu en hef fengið að upplifa ýmislegt á Alþingi, marga sérstaka hluti. Þetta er í topp fimm af spes upplifunum á þinginu, þessi dagur í dag.