143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með að halda þræði. Hv. þingmaður talar um að ég hafi egnt saman Reykjavík og landsbyggðinni (Gripið fram í.) sem ég nefndi ekki í minni ræðu heldur talaði ég um tiltekna staði í kjölfarið á ákvörðun útgerðaraðila í Grindavík.

Hv. þingmaður talar um Icesave og það er gott vegna þess að þá líður þingmanninum eins og hún sé á heimavelli. Mér finnst mikið umhugsunarefni með þessa ríkisstjórn og þá ríkisstjórnarflokka sem hér eru við völd yfir höfuð að vera svo föst í stjórnarandstöðugírnum frá því á síðasta kjörtímabili að þeim er algjörlega fyrirmunað að tala fyrir sínum málum (Gripið fram í: Já.) af gleði og innblæstri. Er ekki einhver ánægja með þetta mál? Getur ekki þingmaðurinn komið hingað og fagnað þessu máli? (VigH: Gerði það …) Þarf hún ekki að gera það? Ég held að það gæti verið góð byrjun að horfa í augun á sjálfri sér í spegli og segja: Þú getur þetta, vinkona, staðið bara með þinni ríkisstjórn. Ég held að það væri ágætisbyrjun.

Einmitt í tengslum við það hef ég verið hugsi yfir umræðunni um lánsveðin og það fólk sem er með þau. Fyrri ríkisstjórn var komin áleiðis með að semja við lífeyrissjóðina um að þeir mundu taka þátt í þeim kostnaði og þess vegna virðast ríkisstjórnarflokkarnir núna ekki vilja ganga inn í það samkomulag. Það er meinbægninnar vegna, bara vegna þess að fyrri ríkisstjórn gerði það skulum við ekki gera það. Þetta er sami þingmaðurinn og er með siðbótarræður um það hvernig fólk eigi að tala í þinginu.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er að tala um að færa umræðuna á hærra plan.