143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er búin að vera afskaplega athyglisverð og hún er búin að vera afskaplega upplýsandi. Ég hef verið að velta fyrir mér öðru hvoru undir umræðunni hvaða skilaboð fólk sem fylgist með henni fær. Og af því að síðasti ræðumaður auglýsti eftir gleði þá get ég fullvissað hana um að sá sem hér stendur er glaður, stoltur, ánægður og vongóður yfir því að þetta sanngirnismál skuli nú vera komið fram. Ég er líka stoltur af því að þau loforð sem gefin voru skuli vera efnd innan árs frá því að ríkisstjórnin komst til valda.

Mig langar aðeins til að fara yfir forsögu þessa máls, vegna þess að það er ekki svo að Framsóknarflokkurinn hafi fengið áhuga á íslenskum heimilum korteri fyrir kosningar 2013. Framsóknarflokkurinn veitti ríkisstjórn hlutleysi sitt árið 2009 snemma árs gegn því loforði að tekið yrði á vandamálum heimilanna. Þáverandi ríkisstjórn stóð reyndar ekki við það loforð og það sem meira var, hún barðist með kjafti og klóm gegn hugmyndum sem Framsóknarflokkurinn lagði fram þá um 20% niðurfellingu skulda meðan bankarnir voru enn í fangi ríkisins. Það tækifæri glataðist því miður eins og mörg önnur undanfarin ár og flækti lausn þess máls sem við ræðum nú.

Glöggir menn munu sjá ef þeir fara í gegnum kosningabæklinga Framsóknarflokksins frá því fyrir síðustu kosningar að þar var sagt að komið yrði til móts við skuldsett heimili með beinni skuldaniðurfærslu, með skattalegum ráðstöfunum og þau tvö frumvörp sem hér hafa verið lögð fram með nokkurra daga millibili vinna einmitt að því markmiði og vinna mjög vel saman.

Mér hefur reyndar fundist að í þessari umræðu hafi verið talað mjög mikið um það sem ekki er í þessu frumvarpi. Einhverra hluta vegna hefur mikið verið talað um hópa sem eru sannarlega ekki hluti af því viðfangsefni sem er í frumvarpinu. Málefni leigjenda sem hér hafa komið mjög til umræðu eru í sérstökum farvegi í vinnuhópi sem er að fara yfir húsnæðisúrræði yfir höfuð og þar er allt undir. Þar er t.d. áhugamál okkar framsóknarmanna, byggingarsamvinnufélög, sem nýtast fólki sem er með minna en meðaltekjur.

Mér hefur líka fundist upplýsandi í þessari umræðu að komið hefur í ljós, og það hlýtur að vera áhugavert fyrir fólk sem situr heima, að tveir aðilar á ASÍ-töxtum sem reka heimili eru allt í einu orðnir hálaunafólk samkvæmt sumum. Að vísu hífði síðasta ríkisstjórn þá upp í milliþrep í skatti, en þetta hljóta samt að vera þó nokkur tíðindi fyrir þetta fólk. Um er að ræða um það bil helming þess fólks sem nýtur þess frumvarps sem hér er til umræðu. Það hljóta líka að vera nokkur tíðindi fyrir fólk sem er með 8 millj. kr. í heimilistekjur, sem er svona eins og einn og hálfur meðal BSRB-maður, þ.e. ef tveir BSRB-félagar búa saman og annar er í hálfu starfi hafa þeir 8 millj. kr. í árstekjur. (Gripið fram í.) Þetta fólk er hálaunafólk að mati minni hlutans hér á Alþingi. Þetta hljóta að vera mjög athyglisverðar upplýsingar fyrir það fólk sem í hlut á. Þetta fólk er ekki hálaunafólk í okkar augum, fólk á meðallaunum samkvæmt BSRB-taxta, en svona er þetta nú misjafnt.

Það eru alls konar tölur hér á flugi. Þessi tvö frumvörp, frumvarpið sem lagt var fram hér fyrir helgi og þetta frumvarp, hafa áhrif á 100 þúsund heimili af 125 þúsund heimilum. Það frumvarp sem hér er sérstaklega til umræðu í kvöld hefur áhrif á 69 þúsund heimili. Og nú segja menn: Þetta fólk hagnaðist á hruninu. Það sagði hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hér rétt áðan. Ég skal viðurkenna að ég sagði hér fyrr í kvöld, sem vakti kátínu ýmissa, að ég hitti fullt af fólki í kosningabaráttunni í fyrra og ég get fullyrt að ekki nokkur einasti maður af því fólki sem ég hitti hafði hagnast á hruninu, ekki nokkur einasti. Það sem þetta fólk hafði hins vegar fram að færa var að mestu leyti þetta: Við stöndum í skilum með erfiðismunum. Hvers eigum við að gjalda?

Það er sá hópur sem sannarlega sat eftir og ég er ekki að gera lítið úr því að hér voru leyfð 110%-lán, og ég er ekki að gera lítið úr því nema síður sé að dómstólar dæmdu gengislánin ólögleg. Þarna fékk hópur fólks leiðréttingu en einn hópur sat eftir og það hópur sem barðist við að standa í skilum, fullhertur af því. Þetta frumvarp og frumvarpið sem lagt var fram hér fyrir helgi vinna vel saman að því að mynda nýjan grundvöll fyrir þetta fólk, að gefa þessu fólki nýja von, að gefa því nýtt tækifæri.

Þá segi ég aftur: Hvaða hópur er þetta? Jú, helmingur þessa hóps er fólk sem hefur 300 þús. kr á mánuði, tveir aðilar sem reka saman heimili, tæplega þó. Ég verð að viðurkenna að að sumu leyti hefur mér liðið svolítið eins og litlu gulu hænunni í þessari umræðu. Nú þegar búið er að sá fræinu, búið að uppskera, búið að þreskja, búið að mala og búið að baka brauð þá koma hundurinn, kötturinn og svínið og þeim líkar ekki hvernig brauðið er í laginu. Fyrir mér snýst ekki málið um það hvernig brauðið er í laginu heldur að það sé bakað. Það sem skiptir mig og okkur í Framsóknarflokknum mestu máli er það að veita þessum málum brautargengi.

Af því að ég minntist á 20% sem barist var gegn árið 2009 þá kom hv. þm. Ögmundur Jónasson fram í fyrra og sagði: Það voru mistök að fara ekki þá leið. Hann viðurkenndi það, hann er maður að meiri. En ég held að hann sé eini maðurinn úr þessum hópi, þ.e. minni hlutans á Alþingi núna, sem orðaði þetta. Auðvitað er auðvelt að vera vitur eftir á. En málið er þetta: Við vorum alltaf sannfærð um að þetta væri hægt, líka þá. Við vorum og erum sannfærð um að hægt sé að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimila og leiðrétta þann forsendubrest sem varð hér á árunum 2009 og 2010. (HHj: 5%) — 5%, segir hv. þm. Helgi Hjörvar. Það má nú ýmislegt segja um hann en ég mundi aldrei segja að hann væri talnaglöggur, en það er önnur saga. (Gripið fram í.)

Aðalatriðið er þetta: Staðið er við að leiðrétta þessi stökkbreyttu lán. Menn hafa sagt: Bíddu, áttu ekki þessir vondu hrægammasjóðir að greiða fyrir þessari aðgerð? Svarið er jú og þeir eru að því. Þeir eru að því vegna þess að sá hluti þeirra ráðstafana sem kemur úr ríkissjóði kemur af bankaskatti sem menn höfðu loksins kjark til að leggja á. Og hverjir eiga svo þessa banka? Að meginhluta til erlendir vogunarsjóðir. Menn geta haft hér flím ef þeir vilja, menn geta hlegið að ráðstöfunum fyrir íslensk heimili eins mikið og þeir vilja. Það verður þá allt í einu bara gleði hér og kominn tími til.

Niðurstaðan er þessi: Þær aðgerðir sem nú er verið að fara í munu koma fjölda fólks til góða og mest því fólki sem hefur meðaltekjur og lægri. Þær munu verða til þess að auka íslenskum heimilum von og trú á framtíðina. Að því viljum við stefna.