143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er algjörlega óskiljanlegt viðhorf. Auðvitað erum við búin að bíða eftir þessu frumvarpi, öll þjóðin hefur verið að bíða eftir þessu frumvarpi. Það voru haldnir fundir 28. nóvember og boðaðar stórkostlegar aðgerðir. Síðan hefur verið talað um heimsmet og ég veit ekki hvað. Auðvitað erum við búin að bíða eftir þessu eins og allir aðrir. Og höfum við verið að tefja hér? Er það að tefja að ræða stærsta mál ríkisstjórnarinnar, er það að tefja?

Er eitthvað óeðlilegt að við höfum skoðun á þessu? Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að það hefur verið sagt hér að fólk með háar tekjur fái greitt út, en það hefur enginn sagt að það sé meiri hluti þeirra sem fái greitt. En vissulega hefur verið bent á að verið er að fara með út úr skuldugum ríkissjóði peninga til fólks sem þarf ekki á þeim að halda. Og ég ætla að leyfa mér að (Forseti hringir.) hafa þá skoðun að það sé röng aðferð, ég ætla að leyfa mér að hafa hana hversu hneykslaður sem (Forseti hringir.) hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson er á því að ég sé ekki innilega (Forseti hringir.) sammála honum í einu og öllu.