143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Eins og ég hef áður bent á segir titill frumvarpsins allt sem segja þarf um hverjir eiga að njóta ávaxta þess.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að málefni leigjenda eru vissulega í nefnd, eins og ég hef tekið fram áður. Sá starfshópur, eins og ég hef líka tekið fram áður, er að fara heildstætt yfir húsnæðisúrræði á Íslandi. Auðvitað vitum við það að hér er stór hópur fólks sem hefur misst eignir sínar eða er ekki kominn á réttan kjöl eftir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. Það er vissulega rétt sem fram hefur komið, af því að hv. þingmaður nefndi það, að 110%-leiðin var væntanlega hugsuð til þess að lina eins og hægt var þrautir þeirra sem voru í mestri neyð.

Ég hef áður tekið það fram, bæði í ræðustól Alþingis og víðar og reyndar í kosningabaráttunni í fyrra, að því miður verður ekki öllum bjargað. Ég ítreka því miður.

Þess vegna er núna verið að fara gaumgæfilega yfir það í góðum vinnuhópi hvernig hægt verður að taka á málefnum þeirra sem ekki falla undir þetta frumvarp, svo sem eins og leigjendum, svo sem eins og þeim sem eru þátttakendur í húsnæðissamvinnufélögum, sem eru okkur ofarlega í huga, eins og ég hef margoft sagt. Vonandi kemur góð niðurstaða úr þeirri vinnu. En auðvitað förum við ekki í aðgerðir eins og þessa eða aðrar nema að vel ígrunduðu máli. Ég eins og allir aðrir hef verið óþreyjufullur eftir að þetta frumvarp kæmi fram. En það tekur tíma að setja svona mál saman.