143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort mér sárnaði eða rann í skap en það að minnsta kosti angraði geð mitt að hlusta á hv. þm. Þorstein Sæmundsson láta niðrandi ummæli falla um félaga minn hv. þm. Helga Hjörvar í ræðu sinni áðan. Af ástæðum sem ég þarf ekki að rekja fyrir hv. þingmanni er það svo að hv. þm. Helgi Hjörvar hefur þróað með sér betra minni og gleggri tölvísi en nokkur maður í þessum sal og það er fullkomlega ástæðulaust og ekki réttlætanlegt þótt hv. þingmanni gremjist að viðtökur hjá þingheimi og meðal almennings séu með þeim eindæmum gagnvart þessu frumvarpi sem raun ber vitni að láta þau ummæli falla sem hann gerði áðan.

Enn síður er það réttlætanlegt að hv. þingmaður núi hv. þm. Helga Hjörvar því um nasir að hafa ekki verið viðstaddur umræðurnar. Hann var á Akureyri í erindum þingsins. Ég held að hv. þingmanni væri miklu sæmra að líta til upphafsmanns þessa máls, hæstv. forsætisráðherra, sem hefur ekki látið sjá sig við þessa umræðu, sem hefur varla látið sjá sig í þessu húsi eftir að hv. þm. Helgi Hjörvar lét hnútasvipu orða sinna smella á herðablöðum hæstv. forsætisráðherra. Ég veit að það er sárt að verða fyrir slíkum höggum en það vill svo til að hv. þingflokksformaður Framsóknar er enn í húsinu og tók það að sér hér fyrr í dag að kenna þjóðinni íslenska mannasiði. Hvernig væri að hv. þingmaður bæði Sigrúnu Magnúsdóttur, hv. þingflokksformann Framsóknar, um einkatíma í mannasiðum?

Hæstv. forseti. Þetta er það að eina sem ég vil segja. Ég hef ákveðna samúð með þessu máli en mér finnst illa hafa til tekist og ætla ekki að láta fleiri orð þar um falla.