143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef aldrei gert kröfur um að nokkur ráðherra verði fluttur í þingsal til að hlusta á umræður og ég ætla ekki að gera það núna. Hins vegar vil ég ítreka það sem ég sagði hér fyrr í kvöld, af því að dregið var í efa að það væri þinglegt að kalla á hæstv. forsætisráðherra og óska eftir viðhorfum hans.

Mér er mætavel kunnugt um að hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra hefur forræði málsins á sínum höndum og hann er sannarlega maður til þess að standa fyrir máli sínu. En það er ekki hann sem var upphafsmaður málsins. Það var hæstv. forsætisráðherra og það er eðlilegt að menn vilji spyrja hann út úr, t.d. um það hvernig stendur á því að þetta er ekki fjármagnað á þann hátt sem hæstv. forsætisráðherra sagði. Hann sagði á sínum tíma að það ætti að gera með samningum við kröfuhafa. Hvað líður því? Þegar ég spyr hæstv. forsætisráðherra um það mál sendir hann mér svar þar sem honum ber ekki saman við upplýsingar sem er að finna í máli hæstv. fjármálaráðherra á heimasíðu hans. Á að láta það mál í hendur einhvers strákaklúbbs og vildarvina þessara manna sem stýra landinu? Er eitthvað að því að menn vilji fá að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þetta?