143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er áætlað að tekjutap ríkissjóðs af aðgerðinni geti numið allt að 22 milljörðum vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar, en ríkið ver 80 milljörðum í þennan hluta aðgerðarinnar. Við höfum viljað líta þannig á að verkefnið væri að styðja heimilin við að lækka skuldastöðu sína. Þess vegna er svona mikil áhersla lögð á heildaráhrif aðgerðarinnar. 150 milljarðar er það sem við og sérfræðingar okkar metum að geti orðið heildaráhrif aðgerðarinnar. Ég tek fram að það eru hámarksáhrif. Ég sé ekki að við getum náð meiri áhrifum en það. Gleymum því ekki að þessi áhrif koma ofan á aðgerðir sem hafa komið til framkvæmda og um margar þeirra hefur verið lítill ágreiningur undanfarin ár.

Varðandi eignastöðuna er rétt að ekki er farið sérstaklega ofan í eignastöðu heimilanna. Við birtum hins vegar súlur um skuldastöðuna og við sjáum það t.d. að heimili með skuldastöðu á bilinu 0–5 milljónir fá einhvers staðar í kringum 2,5–3% af heildaraðgerðinni. Um það bil 97% aðgerðarinnar renna til heimila þar sem skuldirnar eru a.m.k. 5 milljónir. Það segir ákveðna sögu um það að við setjum ekki mikinn þunga í aðgerðinni á heimili þar sem eignastaðan er augljóslega mjög há. En það er sjálfsagt að kanna í nefnd hvort hægt er að kalla fram til viðbótar við þessar upplýsingar gögn um það hversu hátt hlutfall aðgerðanna rennur til heimila þar sem eiginfjárstaða eða nettóeignastaða á heimilinu er einhver tiltekin tala.

Ég vona að þetta svari því helsta sem spurt var um.