143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[00:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð fyrir svolitlum vonbrigðum með hvað hæstv. ráðherra er illa lesinn. Hann getur lesið sér nákvæmlega til um afstöðu mína í þessum málum með því að lesa bók sem kom út fyrir síðustu jól, þar sem afstöðu minni er nákvæmlega lýst. Ég var þeirrar skoðunar að það ætti að ráðast í svona aðgerðir, en ekki á þann hátt sem hæstv. ráðherra leggur til. Ég vildi með svipuðum hætti og til dæmis hv. þm. Helgi Hjörvar sagði á forsíðu Fréttablaðsins á sínum tíma, og ekkert launungarmál, hnitmiða þessum fjárútlátum á tiltekinn hóp. Ég gæti ekki teiknað þann hóp algjörlega upp, til þess að vera ærlegur, en það eru aðrir menn sem eru miklu betur hæfari til þess en ég.

Að öðru leyti er ég ekki ósammála markmiði þessara aðgerða, en mér fannst hæstv. ráðherra taka mjög hraustlega til máls þegar hann sagði að þetta væri fullfjármagnað. Á sínum tíma taldi ég að það ætti að fjármagna með hinu fræga svigrúmi. Ég sé ekkert um það. Ég hef vaxandi efasemdir eða meiri en fyrir kosningar um að sá ágæti skattur sem ég studdi á (Forseti hringir.) fjármálafyrirtæki í slitameðferð muni standast. En þaðan er fjármagnið væntanlega sem á að koma á næstu árum.