143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

fjarvera forsætisráðherra.

[00:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að skilja við þennan þingfund án þess að ræða þá pínlegu uppákomu sem fjarvera hæstv. forsætisráðherra hefur verið hér í tvo daga og tvö kvöld og nú fram í nóttina í stærsta kosningaloforði sem gefið hefur verið í Íslandssögunni um heilt heimsmet sem aldrei varð og hann var upphafsmaður að og er flutt af ríkisstjórn hans, og er sennilega einhver stærsta fjárhagslega tillaga sem kemur fram á kjörtímabilinu. Nú verður ekki úr þessu bætt úr þessu, en ég bið hæstv. forseta um að setja nú þegar á dagskrá fundar þingflokksformanna í hádeginu á morgun viðveru ráðherra við umræður á Alþingi. Það er algerlega óviðunandi að þingmenn þurfi að búa við það að kalla hér aftur og aftur eftir viðveru ráðherra, ekki aðeins í þessu máli heldur hefur þetta gerst oft í vetur. Það þarf augljóslega að skerpa á því (Forseti hringir.) hvaða skyldur menn hafa til að vera við umræðuna, hvaða rétt þingmenn hafa til þess að kalla eftir viðveru þeirra og hvernig (Forseti hringir.) skuli fara með þau mál. Ég fer fram á að það verði sett á dagskrá þingflokksformannafundar í hádeginu á morgun.