143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

ríkisendurskoðandi og ríkisendurskoðun.

488. mál
[00:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni kærlega fyrir þann blíða skilning sem hann sýnir gagnvart fyrirspurn minni. Hún er ekki út í bláinn. Ég lít svo á að við séum eins konar stjórnvald í tengslum við stofnunina og stjórnvald verður alltaf að gera ráð fyrir ófyrirséðum atburðum. Við áttum í merkilegum samræðum um daginn í ræðupúlti Alþingis um þjóðkirkjuna og hvernig ætti að taka á slíkum málum ef upp kæmu innan hennar. Ég tel að mikilvægt sé að þegar við erum að fjalla um stofnunina hugum við líka að vernd starfsmanna. Ég er þeirrar skoðunar sem alþingismaður að starfsmenn Ríkisendurskoðunar eigi, ef þeir telji þörf á, að geta sótt skjól til Alþingis og þá forsætisnefndar ef svo ber undir. Þess vegna vænti ég þess að í kjölfar umræðna milli mín og framsögumanns málsins, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, verði að þessu hugað þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fær málið til umfjöllunar.