143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér störfum þingsins því að nú líður að þinglokum og það eru í raun ekki margir þingfundardagar eftir, tíu dagar ef ég tel rétt og það eru mörg mál sem bíða. Eflaust hafa stjórnvöld einhverja skoðun á því hvaða málum þau vilja ná í gegnum þingið fyrir þinglok. Við þingmenn erum líka með mörg mál sem við mundum vilja ná í gegn.

Þó að ég hafi ekki verið hér lengi þá hef ég þó upplifað það við þinglok að allt endar einhvern veginn í uppnámi og tímapressu og kvöld- og næturfundum, málþófi og samningaviðræðum í hinum ýmsu herbergjum seint að kvöldi. Mér finnast það ekki góð vinnubrögð, og málþóf eins og við iðkum hér þekkist ekki hjá þjóðþingum þeirra landa sem við berum okkur saman við, en við erum jafnan föst í einhverju einkennilegu ferli. Ég velti fyrir mér hvort stjórnvöldum hverju sinni finnist jafnvel bara fínt að minni hlutinn fari í málþóf, þau geti þá bara hrist hausinn og sagt: Það er ekkert hægt að eiga við þetta lið í stjórnarandstöðunni. Er stjórnarandstaðan ef til vill líka að leika þennan leik til að geta sýnt fram á valdhrokann hjá stjórnvöldum? Ég velti fyrir mér af hverju við tölum ekki saman núna og hvers vegna við höfum ekki talað fyrr saman um það hvernig við ætlum að ljúka þingstörfum. Ég hef engan áhuga á að taka þátt í málþófi en það eru klárlega ákveðin mál sem við í Bjartri framtíð mundum vilja ná í gegnum þingið umfram önnur. Við viljum liðka fyrir þingstörfum en þessar samræður þurfa að eiga sér stað og mér finnst það vera stjórnvalda að kalla okkur þá til fundar því að það eru stjórnvöld sem hafa dagskrárvaldið hér á þingi. Ég get ekki sætt mig við að við ætlum að enda hérna enn eitt þingið í einhverju næturbrölti, uppnámi og málþófi sem enginn skilur upp eða niður í. Við erum einhvern veginn föst í þessu fari og við verðum að komast upp úr því. Ég vildi þess vegna beina þeirri spurningu til þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins og vonandi fleiri þingflokksformanna hér, (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins líka, um það hvort þeir sjái eitthvað fyrir sér varðandi það hvernig við ættum að vinna úr þessari stöðu í vor.