143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Skuldatillögur ríkisstjórnarinnar eru mjög illa útfærðar og gagnvart mörgum hópum ótrúlega ósanngjarnar. Í morgun upplýsir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að enn einn ágallinn hafi komið fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þar sem fulltrúar fjármálaráðuneytisins staðfestu að draga ætti fyrri aðgerðir fyrir skuldara frá leiðréttingum hjá sumum en ekki hjá öðrum. Jafn ótrúlegt og það hljómar er í tillögunum gert ráð fyrir því að þeir sem hafa notið skuldaleiðréttinga eða stuðnings með löggjöf frá Alþingi fái ekki skuldaleiðréttingu að þessu sinni heldur verði öll sú aðstoð dregin frá.

Hins vegar á ekki að draga af þeim sem hafa fengið sambærilegar leiðréttingar í frjálsum samningum í bönkunum, í greiðsluaðlögun, í úrræðum sambærilegum við sértæka skuldaaðlögun, í sambærilegum leiðum hjá viðskiptabönkunum, eins og 110% lögformlega leiðin var, þ.e. í frjálsum samningum, hafa fengið skuldalækkun, endurgreiðslur á vaxtakostnaði eða aðra slíka hluti. Af þeim sem fóru í gegnum lögformleg úrræði hjá Íbúðalánasjóði, venjulegt fólk sem fjármagnaði íbúðakaup sín þar, á að draga allan stuðning að fullu (Gripið fram í.) en aðilar sem fóru í gegnum frjálsa samninga í viðskiptabönkunum, af því að þeir voru þar í góðum viðskiptum eða tengslum við bankana eða einhverja innan bankanna og þurftu ekki að fara í gegnum hinar lögformlegu leiðir, fá nú ofan á þá frjálsu samninga sem þeir fengu sérstaka tékka frá ríkisstjórninni, kannski um leið og þeir leggja út fyrir (Forseti hringir.) auðlegðarskattinum sínum.

Þetta er ótrúlega illa hugsað, virðulegur forseti, og sannarlega ósanngjarnt.