143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að játa að mér er stórlega létt eftir að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson upplýsti í fyrstu ferð sinni hingað í ræðustólinn í þessari umræðu að nú horfi allt til betri vegar með vönduð vinnubrögð og skipulag hér á Alþingi frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Það eru góðar fréttir. (Gripið fram í.)

Það er einnig gott til þess að vita að Framsóknarflokknum er fátt mannlegt óviðkomandi. (Gripið fram í: Frábært.) Þannig hafði til dæmis einn talsmaður hans gert að umtalsefni í ræðu á Alþingi það stórfellda vandamál að fólk neyðist sjálft til að lita á sér hárið í stórum stíl. Það er að vísu ekki vandamál í tilviki ræðumanns en á einhvern undarlegan hátt er skuldaniðurfellingin orðin hluti af því að útrýma þessum vanda þannig að fólk geti farið á hárgreiðslustofu til að lita á sér hárið.

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins var líka með mjög athyglisverðar skýringar í þingræðu um hina neikvæðu þjóðarsál og að því er virtist að hún nærðist á sífelldum neikvæðum fréttum. Já, það er athyglisverð kenning, en eigum við nú alveg að útiloka að það sé einhver efnislegur þáttur í henni þegar það kemur til dæmis í ljós að ánægja með störf hæstv. forsætisráðherra er 25% en 64% eru óánægð? Er það bara niðurstaða af einhverri neikvæðri þjóðarsál eða gæti hugsanlega verið eitthvað efnislegt í þessu, að fólk væri bara af gildum og góðum ástæðum óánægt með frammistöðu hæstv. forsætisráðherra þegar rétt rúmlega fjórðungur aðspurðra í könnun er ánægður með skuldalækkunarstörf ríkisstjórnarinnar en tæpur helmingur óánægður? Gætu verið efnislegar ástæður fyrir því að málið sé bara klúður? Og þegar minni hluti þeirra sem enn teljast stuðningsmenn stjórnarflokkanna er ánægður með þeirra eigin aðgerðir, er það þá bara einhver neikvæð þjóðarsál eða gæti verið eitthvað efnislegt í því? Ég held að við verðum að ræða málin með fullri virðingu fyrir því að þjóðin veit sínu viti og sendir ákveðin skilaboð, m.a. í gegnum þær mælingar (Forseti hringir.) sem ég hef gert hér að umtalsefni.