143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir að draga það fram að hér á árunum eftir hrun var sérstaklega að því gætt að standa vörð um þá sem lægstar hafa tekjurnar og hlífa þeim við verstu áföllunum, þar með talið auðvitað lífeyrisþega. Það breytir því ekki að kjör þeirra þurfti að skerða eins og allra annarra í samfélaginu og hefur verið samstaða um að það væru tímabundnar skerðingar og að þær ættu að renna út einmitt á þessum vetri.

Það er ákaflega mikilvægt að þær yfirlýsingar allra stjórnmálaflokka gangi tryggilega eftir og að örorkulífeyrisþegar endurheimti þann kaupmátt sem þeir höfðu þegar efnahagsáföllin dundu yfir.

Ég vil í þessari fyrri ræðu vekja sérstaklega athygli á samkomulaginu um víxlverkun. Þar ákvað ríkið í miklum erfiðleikum í ríkissjóði að setja fjármuni til þess að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skertu greiðslur til fólks vegna bóta almannatrygginga. Þetta samkomulag er nú fallið úr gildi.

Það mun hafa mjög alvarleg áhrif á kjör fjölda fólks ef ekki er undinn bráður bugur að því að endurnýja það samkomulag og fjármagna það af hálfu ríkissjóðs. Ég bið hæstv. ráðherra að staðfesta hér að samkomulagið um að bætur almannatrygginga verði ekki dregnar frá greiðslum fólks í lífeyrissjóðum, samkomulagið um að það séu ekki víxlverkanir þar á milli sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar af Árna Páli Árnasyni, þáverandi félagsmálaráðherra, verði framlengt en verði ekki látið falla úr gildi. Það væri mikilvæg yfirlýsing af hálfu ráðherrans um að kjör þess hóps sem á mikið undir því samkomulagi versni ekki á þessum vetri.