143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[15:53]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda innilega fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er brýn. Eins og fólk hefur farið yfir hérna er staða öryrkja svakaleg, bætur hafa ekki hækkað miðað við verðlag og segja má að öryrkjar hafi orðið fyrir tvöföldum forsendubresti út af því. Eins njóta þeir ekki leiðréttingar í skuldamálum á við aðra af því að þeir eru tekjulægstir. Við vitum að sá hópur fær minnst og það er óréttlæti í því að mínu mati.

Eins er ég sammála því sem hér hefur komið fram í máli margra að kerfi almannatrygginga er mjög óskiljanlegt. Ég hef sjálf átt því láni að fagna að vera á vikulegum fundum í nefnd hv. þm. Péturs H. Blöndals um það kerfi og það hefur ekki dugað mér til að skilja kerfið.

Ég held að sannarlega sé þörf á því að við stokkum upp þar. Ég kann að meta þær hugmyndir sem þar eru kynntar um að koma á starfsgetumati í stað örorkumats, en við þurfum þá að passa okkur á því að við séum ekki aðeins að breyta orðum og gera matið einhvern veginn fallegra heldur að við séum raunverulega að koma á réttarbót og færa fötluðum og öryrkjum meiri úrræði til bjargráða.

Mér finnst það vera meginstefið í þeirri vinnu og ég vonast til þess að við komum því vel leiðar í henni.