143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[16:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þó að ágætt sé að halda því til haga að staðinn hafi verið vörður síðustu ár um þá sem verst eru settir er það auðvitað ekki þannig að þeir séu vel settir og að fyrir þá eigi ekki að gera verulegar úrbætur á þessu kjörtímabili. Ég held að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafi gefið þeim hópi fyrirheit um að við teldum kjör þeirra ekki hafa verið varin nægilega og að bæta þyrfti verulega í. Þó að eflaust sé rétt að það hafi verið bætt kannski 10% í lífeyristryggingarnar er hlutfallshækkunin á öryrkjunum væntanlega nokkru minni en það er. Þær bætur eru bara eins og fólk fær almennt í kjarasamningum og fela ekki í sér neinar sérstakar leiðréttingar.

Sá hópur sem sérstaklega þarf að huga að er sá hópur sem hefur dálitlar tekjur fyrir utan bæturnar í almannatryggingum. Það er rétt að sérstaka framfærsluuppbótin varði býsna vel þá sem eru einungis með bætur frá Tryggingastofnun. Þeir sem höfðu einhverjar aðrar tekjur urðu illa úti á síðustu árum og það þarf sérstaklega að huga að þeim hópi, einmitt í endurskoðun á almannatryggingakerfinu og tillögum að nýju lífeyriskerfi.

Ég tel miður að þær tillögur sem nefnd undir forustu Árna Gunnarssonar gerði og samstaða var um hafi ekki orðið að veruleika og nauðsynlegt sé að endurskoða og einfalda kerfið í heild sinni og ég bind vonir við niðurstöður þeirrar nefndarvinnu sem nú stendur yfir. Um leið og þar er lögð áhersla á starfsendurhæfingu er auðvitað mikilvægt að það sé ekki aðeins metnaður aðila vinnumarkaðarins, að þeir séu ekki þeir einu sem leggja af mörkum þar. Launafólk leggur nú 0,13% af launum sínum í endurhæfingarsjóð, atvinnurekendur leggja 0,13% en ríkissjóður leggur ekki af mörkum þar. Það var sérstök ákvörðun í fjárlagavinnunni á þessum vetri að fella fyrirætlanir um slík framlög af hálfu ríkisins út þannig að þar verða fjármunir að sjálfsögðu líka að fylgja orðum.