143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[16:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja máls á þessu umræðuefni og eins hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa okkur um hvað það er sem núverandi ríkisstjórn hefur gert á kjörtímabilinu og reyna að varpa ljósi á það sem er fram undan. Við bíðum öll spennt eftir niðurstöðu nefndarinnar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leiðir og talað hefur verið um af nokkrum þingmönnum í dag, vegna þess að það skiptir auðvitað máli að við áttum okkur á því hvernig við ætlum að haga hlutunum til framtíðar.

Við eigum ekki að vera feimin við að endurskoða þetta kerfi sem er svo flókið. Eins og margir þingmenn hafa komið inn á er mjög erfitt að setja sig inn í það, hvað þá að reyna að reikna út hvernig það snýr að einstaklingnum sjálfum. Það er erfitt fyrir fólk sem er sækja inn í kerfið að átta sig á því hvernig nákvæmlega það spilar á þeirra eigin hagsmuni og réttindi.

Það að hér hafi komið fram að starfsgetumat sé til skoðunar og verið sé að skoða í fullri alvöru hvernig hægt sé að útfæra það á vegum þessarar nefndar er gott. Við fjölluðum aðeins um það í þinginu á síðasta kjörtímabili að þetta væri framtíðin. Þetta mun auðvitað hafa í för með sér miklar breytingar en hugmyndafræðin sjálf, að meta hvað fólk getur í staðinn fyrir hvað fólk getur ekki, er það sem hugnast held ég flestöllum þingmönnum. Að minnsta kosti var það niðurstaða umræðnanna á síðasta þingi.

Ég tel einnig mjög mikilvægt að við skoðum hvernig fólki er auðveldað að koma aftur inn á vinnumarkaðinn eftir að starfsgeta hefur skerst. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk hafi tækifæri til þess að bjarga sér sjálft eftir því sem hægt er.

Það vekur athygli að eingöngu 50% öryrkja eru að einhverju leyti virkir. Af því hefur maður áhyggjur.

Mig langar jafnframt að benda á að ríkisstjórnin hefur gert talsvert, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) og það er athyglisvert að framlög inn í málaflokkinn hafa hækkað um heil 11% á kjörtímabilinu. Því ber að fagna.