143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

dýralæknaþjónusta í dreifðum byggðum.

479. mál
[16:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir þessa áhugaverðu fyrirspurn. Það er þannig að reglugerð sem sett var 15. september 2011 af þáverandi landbúnaðarráðherra Jóni Bjarnasyni endar á því að það stendur að það skuli endurskoða innan þriggja ára, sérstaklega með tilliti til reynslu af skiptingu þjónustusvæða samkvæmt 2. gr., eins og hv. þingmaður benti á.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um hvort hafin sé endurskoðun reglugerðarinnar um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum er svarið við því já, hún er hafin. Það hefur verið óskað eftir mati Matvælastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, Dýralæknafélags Íslands sem og Bændasamtakanna á þörf á endurskoðun á skiptingu þjónustusvæðanna miðað við fengna reynslu. Ég þekki það af eigin raun að þar hafa ýmsir haft skoðanir á, ekki síst í upphafi, og það getur verið nauðsynlegt að fá þau sjónarmið fram áður en við veltum því fyrir okkur hvort nauðsynlegt sé að breyta þessari skiptingu.

Einnig spyr hv. þingmaður hvort fyrirhugað sé eða hvort hafið sé endurmat á þörf fyrir þessa þjónustu á einstökum svæðum, samanber 5. gr. reglugerðarinnar. Þá er því til að svara að Matvælastofnun hefur ekki hafið slíka vinnu en hún er fyrirhuguð. Fyrir nokkru átti ég fund með yfirdýralækni þar sem ég kynnti þau sjónarmið mín að ég teldi nauðsynlegt að skoða það. Við slíkt endurmat þarf að hafa til hliðsjónar hvort breyting hafi orðið á þörfinni á nauðsynlegri dýralæknaþjónustu eða bráðaþjónustu á tilteknu þjónustusvæði og einnig skal taka mið af þeim fjölda sjálfstætt starfandi dýralækna á viðkomandi þjónustusvæði og/eða fjölda verkefna sem eru þá fyrir starfandi dýralækna.

Hv. þingmaður spyr að auki hvernig sé áformað að standa við endurskoðun á mati á reynslu af núgildandi fyrirkomulagi. Svarið er að ráðuneytið mun hafa samstarf við Matvælastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Dýralæknafélag Íslands sem og Bændasamtökin um framhald málsins og er það í samræmi við þau svör sem berast, samanber fyrstu spurninguna um endurskoðunina.

Að lokum spyr hv. þingmaður hvort ráðuneytið muni kalla eftir samstarfi við bændur um slíka endurskoðun og svarið er auðvitað já. Ráðuneytið telur mjög mikilvægt að haft sé sem víðtækast samráð við þá aðila sem eiga að njóta þeirrar þjónustu sem hér er verið að veita, hvort sem það eru bændur eða aðrir dýraeigendur. Við þetta vil ég bæta að það sem að mínu mati þarf að skoða er hvort vaktsvæðin eða þjónustusvæðin séu of stór. Þegar þetta var gert vorum við í miklum fjárhagslegum vandræðum, ríkið, og menn voru að bregðast við og reyna að tryggja það meginmarkmið að ríkið kæmi að greiðslum til vaktþjónustu og tryggja dýralæknaþjónustu um land allt, en það er dýravelferðarsjónarmið. Mér finnst það mjög mikilvægt markmið sem er í dýralæknalögunum upphaflega, að ríkið komi að þessum þætti með greiðslum, þó svo að búið sé að skilja á milli gamla dýralæknakerfisins þar sem menn voru bæði í eftirliti og þjónustu, að hið opinbera tryggi með ákveðnum hætti að dýralæknaþjónusta sé til staðar.

Það sem við stöndum frammi fyrir núna er að velta fyrir okkur hvort vaktsvæðin séu of stór eða hvort það eigi að vera fleiri en einn dýralæknir á vakt. Það getur líka verið tímabundið, það getur t.d. verið erfitt yfir vetrarmánuðina að fara yfir fjallgarða, snjóþyngsli og annað þar sem þyrfti þá fleiri en einn á vakt. Eins má velta fyrir sér hvort ekki sé til of mikils ætlast að á stærstu þjónustusvæðunum eigi einn einstaklingur að komast yfir að geta þjónustað, sérstaklega bráðaþjónustu á stórum svæðum ef menn þurfa að keyra mjög langar vegalengdir, auk þess sem þær aðgerðir sem kallað er eftir eru margar og það kemur auðvitað niður á þjónustunni ef menn geta ekki komist á réttum tíma í bráðaútköll.