143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

dýralæknaþjónusta í dreifðum byggðum.

479. mál
[16:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir þessi svör. Ég tek undir það sem kom fram undir lok hans ræðu áðan um að velta þurfi fyrir sér þjónustustiginu og stærð vaktsvæðanna. Ég vil bæta við að ég tel ekki síður nauðsynlegt að huga að því að einnig verði farið yfir þau svæði þar sem við höfum ákveðið að sé ekki þörf á slíkum úrlausnum, sem eru þó gerðar í þjónustusamningum við dýralækna þar sem sjálfstætt starfandi dýralæknar eiga að leysa málin, og tryggt að það sé framboð á dýralæknaþjónustu fyrir hendi á þeim svæðum líka og sú reynsla sem komin er á þessum árum sem liðin eru verði þá ekki síst endurmetin í því ljósi.

Þetta rammast inn í þessu stóra máli sem ég veit að við ráðherrann erum sammála um að snúist um að dýralæknir sé ínáanlegur í ekki órafjarlægð frá dýrum sem veikjast. Ég tek undir með ráðherranum að nauðsynlegt sé að við hugum að hversu þétt dýralæknarnir starfa og samningarnir eru, en það tengist í sjálfu sér ekkert búfjárfjölda á hverjum ferkílómetra í þeim efnum. Þetta eru mál eins og hvort yfir höfuð sé hægt að ná í dýralækni fyrir dýraeiganda á Barðaströnd sem þarf jafnvel að sækja hann suður í Búðardal eða suður í Borgarnes eða á Ísafjörð, og miðað við þær samgöngur sem við höfum á því svæði getur það sannarlega verið torsótt. Því tek ég undir vangaveltur ráðherrans áðan um að hugsanlega þurfi að endurskoða kerfið með því fororði að nauðsynlegt sé að hafa á ákveðnum tímum, árstímum, fleiri en einn dýralækni á vakt. Ég þakka fyrir svörin.