143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

innflutningur landbúnaðarafurða.

539. mál
[16:33]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja máls á þessum spurningum. Ég vil vekja athygli á þeim upplýsingum sem komu fram í máli hans, á þeirri stöðu að íslenskir bændur fá í afurðaverð fyrir lambakjöt mun lægra verð en er svokallað heimsmarkaðsverð, þó að það sé í sjálfu sér ekki aðgengileg verðskrá fyrir þá sem kaupa þessar vörur.

Samkvæmt lauslegri úttekt sem ég gerði í haust og kom líka fram á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda um daginn, í úttekt sem þau höfðu gert, er afurðaverð til pólskra sauðfjárbænda hærra en á Íslandi. Mér fyndist áhugavert að við mundum greina þá stöðu, hvernig getur staðið á því. Við ættum líka að skoða þær upplýsingar sem hv. þingmaður setur hér fram um að framleiðendaverð á nautakjöti sé á pari við svokallað heimsmarkaðsverð. Hér á norðurhjara eru þetta stórmerk tíðindi. Okkur gengur illa að fá bændur til að framleiða nautakjöt, sem að mínu viti er fyrst og fremst vegna þess að framleiðsluviljinn eða framleiðslugetan, miðað við þær aðstæður sem greininni eru sköpuð, eru ekki fyrir hendi.