143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

innflutningur landbúnaðarafurða.

539. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau eru mjög uppörvandi. Ég var að vísu ekki að vísa til lifandi dýra enda hafði ég hugsað mér að borða eitthvað af þessu sjálfur og það er ekki gott að gera það á því stigi máls.

Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér finnst ekki sanngjarnt af hæstv. ráðherra að fara í samanburð við Evrópusambandið, ég var eiginlega að tala um frjálslyndisstefnu, frelsi í viðskiptum. Það að vísa í einhver slæm dæmi eins og tollabandalag, sem er mjög flókið tolladæmi — ég ætla ekki að halda því fram að það sé ekki málefnalegt, það er auðvitað ekki þannig, en að mínu áliti eigum við ekki að stefna þangað.

Ástæða þess að ég nefndi hvíta kjötið, sem hæstv. ráðherra sagði að kæmi til greina, er einfaldlega sú, eins og ég hef rakið í blaðagrein og hv. þm. Haraldur Benediktsson vísaði til, að verð til framleiðenda á hvítu kjöti á Íslandi er 250% hærra en hið svokallaða heimsmarkaðsverð. Það hlýtur að segja okkur að þar megum við nú aðeins líta í kringum okkur. Við erum því miður í því umhverfi að menn eru alltaf að skiptast á. Ef ég fæ þetta þá færð þú þetta. Ég vildi gjarnan að við mundum nú skoða það í víðara samhengi.

Ég er sammála því sem kemur fram hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur varðandi það að við verðum líka að horfa til þess að ef viðkomandi vörur eru ekki framleiddar hér á landi þá þurfum við ekkert, jafnvel þó að aðrir geri það, að vera með einhverja sérstaka vernd á slíku. Við þurfum líka að skapa sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað. Við eigum að vera stolt af honum vegna þess að við getum verið stolt af honum, og við þurfum ekki að bera neinn kvíðboga fyrir samanburði.

Ég vonast hins vegar til þess og mun fylgjast vel með því að í það minnsta þessir samningar, þó að ég mundi vilja að gengið yrði lengra en bara það sem snýr að Evrópusambandinu, gangi eftir og það (Forseti hringir.) sem allra fyrst og að við sjáum hér einföldun á kerfinu, aukið framboð af góðum vörum á Íslandi og einnig (Forseti hringir.) að þeir sem eru í öðrum löndum fái að njóta íslensks landbúnaðar í auknum mæli.