143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

hvalveiðar.

541. mál
[16:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir athygli hæstv. ráðherra. Undanfarið hefur mikið verið rætt um hvalveiðar Íslendingar og hvernig alþjóðasamfélagið tekur í þær. Vægast sagt er ekki mikil stemning fyrir þeim. Við erum að upplifa að fiskútflutningsfyrirtæki missa viðskipti vegna þeirra eins og gerðist hjá HB Granda á dögunum. Fólk í ferðamennsku er uggandi og ferðamennskan er sú grein sem færir okkur Íslendingum mestar gjaldeyristekjurnar.

Stjórnsýsla utanríkismála hér á landi er væntanlega líka óróleg því að forseti Bandaríkjanna hefur gagnrýnt veiðarnar á langreyði harðlega og ætlar að beita þrýstingi til að Íslendingar fari að samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Frú forseti. Eins og með allar aðrar greinar finnst mér mikilvægt að ræða hvalveiðar, líka út frá viðskiptalegum sjónarmiðum, og velta því upp hvernig við högnumst á þeim og hverju við erum hugsanlega að tapa, taka bara kalt hagsmunamat. Við getum rætt um prinsipp, þjóðarstolt og einhverjar skilgreiningar á rétti okkar sem þjóð, en ég held að væri ágætt að við tækjum aðeins þetta kalda hagsmunamat. Hvað græðum við á hvalveiðum? Það væri mjög gaman að fá að vita það.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra um fjölda þeirra leyfa sem hafa verið gefin út árlega frá 2006 til veiða á langreyði annars vegar og hrefnu hins vegar. Hvað eru það mörg fyrirtæki sem eru að veiða hvora tegundina fyrir sig? Hvernig gengur þessum fyrirtækjum? Hvert er árlegt heildarútflutningsverðmæti afurða hvorrar tegundar fyrir sig?

Nú vitum við að hægt er að geyma hvalkjöt lengi og ef til vill má bíða með að selja afurðirnar þegar verðin eru lág og sæta færis með sölu þegar verð á markaði hækkar. Sum ár gengur því væntanlega illa í bókhaldi félaganna, en önnur ár gengur kannski betur. Eða hvað? Það væri fróðlegt að fá að heyra af því hér.

Svo væri líka gott að fá að vita hversu stór hluti af auðlindinni rennur í kassa ríkissjóðs. Hve há eru veiðileyfagjöldin á langreyði annars vegar og hrefnu hins vegar? Hve mikið er greitt í ríkissjóð í formi annarra gjalda en leyfisgjalda?

Mörgum þykir ef til vill ankannalegt að tala um krónur og aura þegar við ræðum um hvalveiðar vegna þess að við erum vön því að umræðan snúist um siðferði, mannúð og það að standa við alþjóðaskuldbindingar. Það er mjög mikilvægur póll í umræðunni, en ég held að það mundi auðvelda okkur hlutina mjög að heyra þessa hlið á málinu. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. ráðherra.