143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

hvalveiðar.

541. mál
[16:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það verður að gæta þess mjög varðandi hrefnuveiðar að þær skerði ekki möguleika hvalaskoðunarfyrirtækja. Ég vil segja það alveg skýrt að ég tel að hæstv. ráðherra hafi gengið of langt varðandi leyfisveitingar þar. Ef það er rétt, sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði hér áðan, að minna væri til dæmis um hrefnu í Faxaflóa en áður ætti alveg fortakslaust að banna allar hrefnuveiðar í stóran radíus þar út frá. Það hefur ekki verið gert.

Ég er hins vegar ósammála því viðhorfi sem hér hefur komið fram að andstaða við hvalveiðar sé að magnast. Ef ég ber saman mína reynslu sem umhverfisráðherra 1993–1995 og síðan sem utanríkisráðherra síðasta fjóra og hálfa árið var miklu meiri andstaða fyrir 14 til 15 árum en er í dag. Hins vegar grundvallast þetta allt á sjálfbærniprinsippinu. Ég vil segja það sem mína skoðun að á meðan ekki er hægt að selja afurðir eru veiðarnar ekki sjálfbærar, jafnvel þó að stofnarnir séu ekki í hættu. Mér virðist, að því er langreyðina varðar, að miðað við það séu veiðarnar ekki sjálfbærar vegna þess að ekki er til fastur markaður fyrir þær.