143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

hvalveiðar.

541. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin. Ég var að reyna að hripa niður allar þær talnarunur sem hann nefndi hér og ég mun horfa á þessa upptöku aftur og skrifa þetta allt hjá mér. Ég vona að ég fari ekki með rangt mál en mér heyrðist hann segja að útflutningsverðmætið væri alls 4 milljarðar og svo nefndi hann að hrefnan færi aðallega á innanlandsmarkað. Við vitum þá að þetta er frá þessu eina fyrirtæki sem selur langreyði út, þar höfum við það, þar höfum við þetta kalda viðskiptalega mat. Svo þarf að svara þeirri spurningu hvort þetta sé þess virði fyrir okkur öll, út af því, eins og fram kom, að það er ekki eins og mikið renni í ríkissjóð vegna þessara veiða, það er bara ekki neitt, engin veiðileyfagjöld eru tekin af þessari auðlind ef við eigum að kalla hana það.

Þá spyr ég hvort eitthvert vit sé í þessu í raun. Mér hefur svolítið fundist í þessari umræðu við vera þvermóðskufull og með óljósar skýringar og forsendur á prinsippum og rétti. Ráðamenn enda alltaf á að tala um Bandaríkin, að þeir séu svo hræðilegir þar, en það kemur okkur bara ekki neitt við. Hvað Bandaríkin gera kemur hvalveiðum Íslendinga ekkert við. (Gripið fram í.) Nei, það gerir það nefnilega ekki. Ef við ætlum að vera stór og standa á okkar prinsippum þá þurfum við bara að skoða hlutina út frá okkur sjálfum.