143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

hvalveiðar.

541. mál
[16:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki skilið það að það komi okkur ekkert við hvort Bandaríkjamenn haga sér með sjálfbærum hætti við sínar veiðar ef það er síðan fullkomlega eðlilegt að þeir hafi einhver stórkostleg áhrif á það hvernig við högum okkur. Ég tek undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er lykilatriði að við byggjum veiðarnar á sjálfbærni. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að þær breytingar sem gerðar voru á línum á milli skoðunarsvæða ferðaþjónustunnar, hvalaskoðunar, og veiðanna hér í Faxaflóa í fyrra hafi haft nokkur áhrif, þegar menn kynna sér það til hlítar sjá menn að það rekst hvergi á.

Hér var líka nefnt að verulegar tekjur væru af hvalaskoðun og 20% árlegur vöxtur allan þann tíma sem við höfum verið að veiða. Þá tek ég undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, ég held að hægt sé að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að veiðar okkar séu sjálfbærar og skynsamlegar og að þær rúmist algjörlega innan þess sem menn geti talið eðlilegt; og veiðarnar eru auðvitað mannúðlegar upp að því marki sem veiðar á villtum dýrum geta verið.

Ég tel afstöðu okkar engan veginn þvermóðskufulla, síður en svo. Á meðan við byggjum veiðarnar á sjálfbærni og fullkomnum rétti okkar til nýtingar er það engan veginn þvermóðskufull afstaða.

Ég vil hins vegar varpa því hér fram, varðandi hvalaskoðunarfyrirtækin, þegar menn tala um opinberar tekjur, að þá greiða þau engan virðisaukaskatt af starfsemi sinni. Hvaða tekjur renna þá í ríkiskassann af þessari umtalsverðu starfsemi? Og ef það er 20% vöxtur, hvernig geta menn þá haldið því hér fram að fyrirtækin stefni í taprekstur? Það er þá eitthvað sérkennilegur rekstur. Greiða ekki virðisaukaskatt og 20% vöxtur árlegur, samt stefni menn í tap — það er eitthvað að.