143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

framtíðarfyrirkomulag innanlandsflugs.

400. mál
[17:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála því að þetta er ekki bara debet- og kredit-mál í einhverjum excel-skjölum, það þarf að taka hina félagshagfræðilegu byggðalegu þætti með í reikninginn. Ég skil það þannig að það sé eitthvert vopnahlé í þessu og að völlurinn verði í friði hér til 2022 eða 2024, eða hvað samkomulagið nú er miðað við.

Það sem mig fýsir að vita er: Hvað má gera á meðan og hvað má gera núna? Það eru kannski tvö atriði sem standa þar upp úr í mínum huga. Verður á grundvelli þessa samkomulags hægt að endurnýja húsakostinn við Reykjavíkurflugvöll? Hann er auðvitað engan veginn manni bjóðandi og það er kraftaverk hvernig hægt er að láta flugið fara fram við þessar bágbornu aðstæður. Áform hafa staðið um að byggja þarna, jafnvel bara þótt til bráðabirgða sé þannig að þarna verði sómasamleg aðstaða þessi næstu átta, tíu ár sem völlurinn má þó vera. Í öðru lagi, fá Færeyingar að lenda á sínum nýju flugvélum á Reykjavíkurflugvelli? Ég skil ekki hvaða stífni er í því máli að flugið frá Færeyjum skuli ekki mega (Forseti hringir.) lenda þó að komnar séu örlítið nýrri og reyndar hljóðlátari vélar og væri fróðlegt að vita þetta tvennt.