143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og vil fyrir mitt leyti hvorki útiloka einkaframkvæmd á Sundabraut né gjaldtöku á þeirri leið. En ég ítreka spurninguna hvað varðar hinar tvær leiðir okkar Reykvíkinga út úr borginni, annars vegar um Hellisheiðina, sem eru auðvitað umtalsverðar framkvæmdir, og síðan er enn verið að ljúka tvöfölduninni á Keflavíkurveginum. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hún telji ekki koma til álita veggjöld á þeim leiðum, enda varla raunhæfir valkostir um aðrar leiðir að fara en þær leiðir sem verið er að efla þar.

Ég vildi síðan annars vegar spyrja hæstv. ráðherra um hver áætlaður heildarkostnaður er við Dýrafjarðargöngin sem hún hyggst hefja vinnu við á kjörtímabilinu og hins vegar spyrja um þá ferju sem ætlunin var alltaf að setja í Landeyjahöfn. Landeyjahöfn hefur að minnsta kosti að sumrinu til reynst vera gríðarlega mikil samgöngubót fyrir Vestmannaeyjar. Talsverðir rekstrarerfiðleikar hafa fylgt henni, ekki síst á vetrum, og ýmsar framkvæmdir sem ráðherra vísaði til að farið yrði í til að bæta höfnina og minnka sandburð þar varanlega. Við vonum að það gangi vel.

Vestmannaeyingar áttu líka að fá nýtt skip sem hæfði betur höfninni og risti ekki eins djúpt og það sem nú siglir og gerði þá að verkum að hægt væri að nota höfnina í miklu fleiri daga á ári. Ég spyr hvar það verkefni er á vegi statt, hvort hún sjái fyrir sér að það verði komið í höfn á þessu kjörtímabili.