143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[17:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér gott að samgönguáætlun til næstu ára er komin fram þannig að einhver tími gefist til að skoða hana hér á vordögum. En hitt er annað mál að auðvitað er innihald hennar ekki að öllu leyti fagnaðarefni og hefur svo sem ekki verið það undanfarin ár. Við vitum vel að einn af þeim málaflokkum þar sem borið var niður og verulega var dregið úr útgjöldum voru til fjárfestinga í samgöngumálum á erfiðustu árunum. Það er einhvern veginn þannig eins og blessuð samgöngumálin verði gjarnan fyrir því bæði í góðæri og harðæri að þau eru skorin niður. Minnumst þess þá að það var líka umtalsverður niðurskurður á fjárveitingum til samgöngumála til að koma í veg fyrir þenslu á þeim árum sem menn töldu sig þó vera bullandi ríka.

Ég ætla bara rétt að nefna, sem ég hef gert áður hér í umræðum um Dettifossveg, óánægju mína með meðferðina á þeirri framkvæmd, sem mér finnst vera ósanngjörn. Það er ekki sanngjarnt að þessi framkvæmd, sem var jafnsett mörgum öðrum í samgönguáætlun hinni fráfarandi, skuli fara þannig út úr þessum skiptum að hún kemur mörgum árum síðar í gagnið en aðrar framkvæmdir sem stóðu henni við hlið í fyrri samgönguáætlun. Og hér eru fjárveitingar stilltar þannig af að það er ekki fyrr en á árinu 2017, samanber það sem segir um málið í kaflanum Norðursvæðið á bls. 41, að gert er ráð fyrir því að framkvæmdum ljúki. Ég hef nú reyndar heyrt hæstv. ráðherra og hv. þm. Kristján Möller ganga út frá því að þetta yrði 2016 og vonandi verður það þá bara en skjölin sem hér fylgja með ganga út á þetta.

Sama má eiginlega segja um framkvæmdirnar almennt á norður- og austursvæðunum að þær eru auðvitað dapurlega litlar. Ég er þó ekkert síður hugsi yfir því að nú er samgönguáætlun sett þannig fram að búið er að sameina stofn- og tengivegi í einn flokk og þar af leiðandi ættu tengivegir, ef einhverjar stofnframkvæmdir væru, að vera listaðar sérstaklega í samgönguáætluninni. En ég finn það bara alla sekki neitt. Undir liðnum sameiginlegt og óskipt er talað um tengivegi, malbikun þeirra og því fylgir ákveðinn texti. Þar er gert ráð fyrir 750 eða 930 til 950 millj. kr. á ári, en það eru auðvitað afar litlir peningar þegar haft er í huga hversu gríðarlega viðamikið það vegakerfi er. Má ég til dæmis bara minna á að á norðursvæðinu einu saman eru tæpir 1.000 kílómetrar af tengivegum og yfir 1.000 kílómetrar af héraðsvegum. Samtals er vegakerfi norðursvæðisins rétt tæpir 4.000 km. Þarna bíða verkefni sem hafa beðið árum og jafnvel áratugum saman og það hillir því miður ekkert undir neina úrlausn að því er séð verður nema þá það sem hægt verður að klípa af þessum óskipta lið í að lappa upp á og malbika einhverja búta í þessu vegakerfi.

Ég get nefnt sem dæmi stöðuna á miðju Norðurlandi eða á Norðausturlandinu þar sem undanfarin allmörg ár hefur þó tekist að hafa í gangi svona eina framkvæmd í tengivegum að meðaltali í Fnjóskadal, Svarfaðardal, en alveg gríðarleg verkefni bíða. Allur Bárðardalur með meira og minna ónýtu vegakerfi, fram Eyjafjörðurinn, út Kinnin, út Fnjóskadalurinn og þannig gæti ég lengi talið, og telur upp undir 1.000 kílómetra á norðursvæðinu svokallaða, vegakerfi af þessu tagi, sem er í afar döpru ástandi.

Á norðausturleiðinni er um það bil 11 km malarvegakafli, sem auðvitað stingur mjög í augu þegar loksins eru komnar þær miklu vegabætur sem þar hafa orðið undanfarin ár og auðvitað á að gleðjast yfir, það er leið um Hófaskarð og tenging Vopnafjarðar. En norðausturleiðin, sem er náttúrlega gríðarlega löng og mikilvæg flutningaleið úr Ljósavatnsskarði og með ströndinni austur um til Vopnafjarðar og upp á þjóðveg 1 á Vopnafjarðarheiði eða Möðrudalsöræfum, á þeirri löngu leið eru 11 km malarvegakaflar sem auðvitað leiða til þungatakmarkana og vandræða í flutningum á löngum köflum. Það er auðvitað mjög blóðugt að sjá hvergi hilla undir það að þessir tiltölulega stuttu malarbútar hverfi út af svona langri leið með öllu því gríðarlega óhagræði sem er að því að þeir skuli standa þarna eftir.

Aðeins um fjárhagsstöðuna þá er það auðvitað ljóst að Vegagerðin hefur ekki úr öðru að spila en þeim tekjum sem henni eru færðar með sjálfsaflafé eða mörkuðum tekjum og þá eftir atvikum fjárlögum, af fjárlögum í viðbót. Þar verður að horfast í augu við það, og þar bera svo sem margir ábyrgð, að þetta hefur þróast þannig undanfarin ár að markaðar tekjur eru miklu fjær því að hafa fylgt verðlagi en önnur gjöld á umferðina. Og enn er höggvið í þann knérunn. Til dæmis er hér frumvarp til meðferðar um útfærslu gjaldskrárlækkana hæstv. ríkisstjórnar sem innspil í kjarasamninga, og ég fæ ekki betur séð en að lækkunin á mörkuðu tekjunum þar sé tvöföld á við lækkunina á ómörkuðu tekjunum sem renna beint í Vegasjóð.

Af hverju er farið svona með Vegasjóð alltaf, hann dregur alltaf styttra stráið í þessum samskiptum? Og bætist það þá við að nú er upp tekinn sá siður að ætla Vegasjóði að skila í ríkissjóð aftur einhverri uppreiknaðri skuld sem menn hafa komist að í ríkisbókhaldinu að standi á Vegasjóð, en ég kannast nú ekkert við. Ég veit ekki betur en að Alþingi og stjórnvöld hafi alveg vitað hvað þau hafa verið að gera undanfarin ár þegar þau hafa aukið við vegaframkvæmdir með beinum fjárveitingum úr ríkissjóði. Hvar stendur það í textum að það sé skuld á Vegasjóð? Ég hef ekki fundið það, ég kannast ekki við þær lögskýringar, ég leit ekki svo á sem fjármálaráðherra. Hefur kansellíið bara fundið þetta upp? Af hverju var það ekki á hreinu að þetta voru viðbótarframlög til að auka samgönguframkvæmdir á tilteknum tímum og var ekkert reiknað með því að það kæmi til baka?

Bara með því til dæmis að reyna nú að mjaka mörkuðu tekjustofnunum upp og láta þá að minnsta kosti vel fylgja verðlagi og draga þá frekar örlítið úr hækkunum á almenna bensíngjaldinu á móti væri hugsanlegt að færa þarna aðeins til tekjur þannig að svigrúmið til almennra vegaframkvæmda ykist eitthvað á næstu árum. Það er það sem er að verða svo hættulega lítið, náttúrlega bæði til framkvæmda en líka til viðhalds og rekstrar vegakerfisins að þetta er að stefna í mikið óefni hjá okkur. Það er bara þannig, við verðum að horfast í augu við það, ekki til þess að ásaka einn eða neinn fyrir það, það er bara eins og það er, en ég hef dauðans áhyggjur af framhaldinu næstu árin ef ekki tekst samstaða um að laga eitthvað stöðuna.

Ég vil svo aðeins nefna flugið. Þar held ég sömuleiðis að við þurfum verulega að fara að gæta að okkur, styrkir til flugrekstrarins innan lands hafa farið verulega lækkandi að raungildi og eru orðnir mjög tæpir. Og því miður var í fjárlögum þessa árs enn höggvið í þann knérunn og 15% lækkun á þjónustusamningnum við Isavia, ef ég man rétt, þ.e. ríkisframlögunum til flugvalla- og flugleiðsöguþjónustunnar, tekið niður um 15% að raunvirði í fjárlögum ársins 2014, og það endar sömuleiðis með ósköpum. Talið var að þyrfti í framkvæmdir 600–700 milljónir á ári ef vel ætti að vera en það er komið niður í 150 milljónir, sem er hægt að verja til viðhalds; og þið sjáið hvernig farið er að forgangsraða í þeim verkefnum að það eru bara allra brýnustu öryggisatriði sem er reynt að sinna, og enginn ræðir um neinar framkvæmdir lengur.

Ég fagna því að vísu að á bls. 26 stendur, undir kaflanum Styrkir til innanlandsflugs, að gert sé ráð fyrir að nýtt útboð fari fram og þá væntanlega á fluginu til allra þeirra staða sem þar eru taldir upp. Það er Bíldudalur, Gjögur, Grímsey, Þórshöfn, Vopnafjörður og Höfn í Hornafirði. Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra og fá staðfestingu á því að það sé réttur skilningur að það verði sem sagt boðnir út samningar um áframhaldandi ríkisstyrkt flug á þessa staði sem þarna eru taldir upp á árinu. Ég mundi mjög fagna því til að óvissu linni um þau efni.

Það væri hægt að telja hér lengi upp brýnar og þarfar framkvæmdir sem hvergi sér fyrir endann á. Ég nefndi tengivegina á noðursvæðinu, ég gæti sömuleiðis nefnt framkvæmdir eins og veg yfir Öxi og tengingu Borgarfjarðar eystri á austursvæðinu. Það er auðvitað dálítið merkilegt og það er upplifun fyrir mann að fletta samgönguáætlun og sjá heilu landshlutana núna til næstu þriggja, fjögurra ára með tvær framkvæmdir; tvær framkvæmdir á norðursvæðinu, tvær framkvæmdir á austursvæðinu, búið. Ég hef aldrei áður séð samgönguáætlun sem er komin svona neðarlega, við erum að tala um eina til þrjár framkvæmdir í hverjum landshluta. Það er auðvitað mikil breyting. Sumar þeirra eru að vísu stórar og miklar eins og Norðfjarðargöng að sjálfsögðu, og það er alveg hægt að láta eftir sér (Forseti hringir.) ánægju með þó það sem er að þokast áfram, en hitt er líka mjög tilfinnanlegt hve mörg verkefni eiga enn að bíða út allan áætlunartíma þessarar áætlunar.