143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[17:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi nýjan Herjólf er ekki óeðlilegt að menn hafi velt fyrir sér hvernig sé hægt að flýta því að fá skipið og koma þannig samgöngunum, sem skipta svo miklu máli fyrir lífið í Vestmannaeyjum, á góðan og öruggan stað og í gegnum Landeyjahöfn. Þá hafa menn velt fyrir sér hvort það væri möguleiki að fara í einhvers konar félag, menn hafa talað um samkrull á milli sveitarfélagsins og ríkisins og fleiri.

Mér finnst afar mikilvægt að örugg samgönguleið sé á milli lands og Eyja. Við sáum það í verkfallinu um daginn hvað það skiptir miklu máli fyrir lífið í Eyjum að það sé í lagi. Ég er ekki á móti einhvers konar félagaformi um byggingu Herjólfs, en ég væri á móti því að samgöngur þarna þyrftu algjörlega að treysta á einkafyrirtæki. Ég held að samgöngur á milli lands og Eyja verði að vera öruggar og þær yrðu að vera styrktar einhvern veginn með opinberu fé.

Varðandi einbreiðar brýr þá er brúargerð mannfrek. Að því leyti eru þær aðgerðir kostnaðarsamar og kannski þess vegna sem ekki hefur verið farið í þær. En þetta er aðkallandi verkefni og skiptir máli fyrir atvinnuöryggi. Þetta er samkvæmisleikur, börnunum í bílunum er haldið við efnið með því að telja brýrnar. Sá leikur mundi detta út en umferðaröryggi aukast.