143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er það svo víða um heim að þarf að sitja í lest eða strætó í hálftíma, klukkutíma út á flugvöll. Það eru um 40 mínútur á milli Reykjavíkur og Keflavíkur þannig að það er ekki um langan veg að fara. Suðurnesjamenn hafa gert greiningar á því hver ávinningur væri fyrir Suðurnesin og auðvitað væri hann margvíslegur, fyrir samfélögin í kring, fyrir þjónustuna og fyrir virknina í kringum flugvallarstarfið. Það mundi bætast heilmikið við en ekki mikill kostnaður vegna þess að þarna eru byggingar sem ríkið á og þarna eru flugbrautir, það er í raun allt til alls. Það þyrfti að sjálfsögðu að efla samgöngurnar og hafa þær öruggar, en það yrði beint flug milli Keflavíkur og valinna áfangastaða innan lands til dæmis og þetta gæti verið leið til þess að uppfylla það markmið samgönguáætlunar að tryggja landsbyggðinni greiðan aðgang að tengingu við alþjóðamarkaði. Það er eitt atriði sem gengi beint inn.

Menn þurfa að meta hvort það sé svona rosalega mikilvægt og skipti svo miklu máli fyrir landsbyggðarmenn að lenda í miðbæ Reykjavíkur. Svo virðist vera. Undirskriftir eru það margar að það virðist vera mörgum mikið hjartans mál að geta gert það. Ef það á hins vegar að færa flugvöllinn legg ég ríka áherslu á að sá möguleiki að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur þar sem allt er til alls, og samgöngurnar bættar á milli, sé ekki útilokaður í dæminu.