143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra framsögu með tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun og vil taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Nú bregður þannig við að þegar við ræðum um samgöngumál þá sker kannski ekki svo mikið í flokkslínur heldur eru þingmenn miklu frekar sammála um mikilvægi þess að standa myndarlega að því að byggja upp öflugar og góðar samgöngur. Við skulum heldur ekki gleyma því að náðst hafa mjög stórir og miklir sigrar á undanförnum árum sem hafa gjörbreytt búsetu í mörgum héruðum og aukið umferðaröryggi mikið og í raun og veru breytt þjóðfélagsgerðinni hjá okkur gríðarlega. Því skulum við ekki gleyma.

Það er kannski þess vegna, þegar við horfum á þær breytingar og þá miklu sigra sem við höfum unnið á þeim vettvangi, sem við bíðum óþreyjufull eftir að geta unnið enn stærri sigra og gengið hraðar fram, en til þess setur fjármagnið okkur skorður og kannski er ekki ástæða til að ræða það mjög ítarlega í stuttum umræðum um þingsályktunartillöguna. Ég vil þó segja að í fyrsta lagi er mikilvægt að ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram varðandi fjármagn til vegamála og að þau verði þá í það minnsta ekki skert meira. Vonandi skapast aðstæður í efnahagslífi okkar til að bæta í og gera betur.

Það sem ég vildi nefna — og auðvitað verður að taka þessa umræðu svolítið þannig að hún beinist til hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem fær þingsályktunartillöguna til efnislegrar meðferðar — er að skoða tekjustofna Vegagerðarinnar eða tekjustofna þess að bæta samgöngur, hvort sem það eru eldsneytisgjöld eða aðrir tekjustofnar. Ég vil sérstaklega nefna að breytingar eru að verða í notkun á orkugjöfum í samgöngum sem kannski koma þá þar inn í. Þess vegna held ég að við verðum að hugsa veggjöld og gjöld á eldsneyti til vegagerðar með öðrum hætti en við höfum gert hingað til þar sem við erum í meira mæli að sjá svokallaða tvinnbíla og jafnvel rafbíla sem í mínum huga slíta vegunum ekkert minna en dísilbílar og bensínbílar. Ég held að óhjákvæmilegt sé að það verði tekið sérstaklega til umræðu, þ.e. framtíð veggjalda og framtíð þeirra tekjustofna sem við byggjum þá vegi fyrir.

Í öðru lagi þarf styrking atvinnusvæða að mínu viti að vera þungamiðjan í áherslum okkar til vegamála. Við höfum séð hvað gangagerð getur breytt gríðarlega miklu. Við höfum séð á mörgum landsvæðum hversu miklar breytingar eru í kjölfarið á því að boruð hafa verið göng og hvað það getur breytt gríðarlega miklu. Við horfum kannski sérstaklega upp á byggðarlag eins og Siglufjörð þessa mánuðina sem rís nú upp sem aldrei fyrr og þar er gríðarlega mikil uppbygging.

Í þriðja lagi sá þáttur að rjúfa vetrareinangrun. Við munum ekki efla byggðir öðruvísi en að geta rofið vetrareinangrun. Ég ætla að veturinn sem er nú að líða hafi verið óvenjuþungur í rekstri Vegagerðarinnar vegna snjóa. Það mun að sjálfsögðu hafa áhrif til skamms tíma á fjármagn sem við höfum til vegamála, sem segir okkur það að við búum í mjög harðbýlu landi. Áherslur varðandi snjómokstur og að halda vegum opnum held ég að hljóti að koma til umræðu við vinnslu á þingsályktunartillögunni og í framhaldi um vegamál. Ég bendi á svör sem hæstv. innanríkisráðherra hefur komið með um kostnað við að fjölga mokstursdögum á Vestfjörðum.

Meginathugasemd mín við þingsályktunartillöguna er við umfjöllun á bls. 39 þar sem fjallað er um Vestfjarðaveg, um Gufudalssveit. Ég vil beina því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að rannsaka og reyna að greina mjög ítarlega þá stöðu sem sú vegarlagning er komin í. Mér finnst það ekki góð staða að þurfa að birta það í þingskjalinu, eins og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Af þessu leiðir að ákveðin pattstaða er í málinu en unnið er að lausn þess. Þegar lausnin liggur fyrir og umhverfismat hefur farið fram þarf að fara í verkhönnun og er hæpið að framkvæmdir geti hafist fyrr en í fyrsta lagi 2016.“

Ég þarf ekki að rifja upp þá sögu um vegarlagningu um Teigsskóg sérstaklega. Í mínum huga er mikilvægast, og ég held ég geti talað fyrir allan þingmannahóp Norðvesturkjördæmis, að þessi framkvæmd komist sem hraðast áfram og um hana geti náðst sátt, hvernig sem hún verður. Þess vegna legg ég mikinn þunga á að nefndin sem fjallar um þingsályktunartillöguna greini þessa stöðu sérstaklega og geti vonandi brotist í gegn með það að færa þá áhersluna með þeim hætti að við komumst fyrr í þá vegarlagningu. Það er mín stóra athugasemd við þessa þingsályktunartillögu.

Á hinn bóginn get ég tekið undir það sem fram hefur komið um tengivegi. Ég held að engin áhersla í samgöngumálum geti verið jafn mikilvæg fyrir hinar dreifðu byggðir og áherslan á að byggja upp tengivegi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti öll þau hundruð kílómetra sem eru í tengivegum í Norðausturkjördæmi, og þá er ekki úr vegi að benda á það að rétt um eða rúmlega helmingur af öllum tengivegum á Íslandi eru í Norðvesturkjördæmi. Mikið hörmungarástand er á þeim tengivegum og þær leiðir sem við höfum verið að bjóða upp á á undanförnum árum í uppbyggingu þeirra eru nú kannski þannig að margir núlifandi íbúar sveitanna geta ekki verið óskaplega bjartsýnir á vegabætur og samgöngubætur í heimahéruðum, í sínum heimasveitum. Þess vegna beini ég því einnig til nefndarinnar að ræða sérstaklega fjármagn til tengivegagerðar og áherslur í þeim efnum.

Um þann þátt sem snýr að öryggismálum tek ég að sjálfsögðu undir. Ég vil að nefndin skoði sérstaklega öryggismálin varðandi veggirðingar og viðhald á veggirðingum og samræmingu þeirra og ástand þeirra, sem tengist þá umferð búfjár á þjóðvegum eða þegar búfé sleppur á þjóðvegi. Ég held að til mikils sé að vinna fyrir samgöngunefnd að greina þann þátt vandlega og koma fram með mótaðri stefnu í þeim efnum eða alla vega hnykkja á þeirri stefnu sem þar er. Og ekki síður varðandi undirgöng fyrir búfé undir þjóðvegi. Ég beini því til nefndarinnar að skoða það sérstaklega er varðar öryggismálin og öryggisþáttinn.

Einkaframkvæmd í vegagerð, eins og hæstv. innanríkisráðherra talar fyrir í þessari þingsályktunartillögu, er í mínum huga bara eðlilegur framgangur eða eðlileg þróun þeirrar vegagerðar á Íslandi sem við þurfum að horfa fram á. Einkaframkvæmd í vegagerð á Íslandi er staðreynd, hún er staðreynd í okkar vegakerfi. Ég held því að í sjálfu sér sé sá ís brotinn. Við erum með einkaframkvæmd gamla og gróna í Hvalfjarðargöngum, sem er kannski sú sem mesta og lengsta reynslan er komin á. Við erum að byggja Vaðlaheiðargöng, sem er einkaframkvæmd í vegagerð á Íslandi. Og Sundabraut sem einkaframkvæmd er ákaflega athyglisverður kostur. Ég tek undir með ráðherra þegar hún segir að auðvitað sé mikilvægt að valkosturinn sé alltaf að fólk hafi val um aðra leið til að komast hjá gjaldtöku. Ég tel fyrir mitt leyti að til verulega mikils sé að vinna í þeim efnum að móta einkaframkvæmd í samgöngubótum á Íslandi sem geti þá flýtt framkvæmdum.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar held ég að þingmenn greini í sjálfu sér ekki á eftir flokkslínum eða djúpar skotgrafir séu þeirra á milli um þá áherslu sem við getum öll verið sammála um, þ.e. mikilvægi þess að geta varið miklum fjármunum til vegagerðar, ég tel persónulega að fátt sé hagkvæmara, hvort sem við tölum um byggðamál eða öryggismál, og ég tala nú ekki um þá stöðu sem komin er upp í vaxandi fjölda ferðamanna hingað til lands. Bara það verk að geta beint ferðamönnum markvissar um landið ætti að vera umfjöllunarefni þingsályktunartillögunnar og þá er ég kannski að vísa til vega, eins og reyndar er lagt til í tillögunni, um áframhaldandi uppbyggingu á Uxahryggjavegi, við gætum nefnt Kjalveg og fleiri vegi. Í mínum huga ætti það ekkert að verða stórkostlegra en það að borið væri ofan í verstu kaflana. Ég er ekki að tala fyrir uppbyggingu hálendisvega, að þessu sinni alla vega, menn mega ekki skilja orð mín á þann veg, en bara sem verkfæri í samgönguáætlun til að ná að dreifa umferð ferðamanna betur um landið. Ég tel að þar séu mörg óunnin löndin.