143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:20]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að mæta í ræðustól Alþingis með langan óskalista um vegaframkvæmdir. Ég hugsa að hver einasti þingmaður geti staðið hér upp og flutt sínar áherslur og sína sýn á forgangsmál í samgöngum á Íslandi.

Þingmaðurinn spyr um öryggismál, undirgöng og veggirðingar og slíka hluti en áhersluatriði í þessari þingsályktunartillögu er um öryggismál. Ég er einfaldlega að beina því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að fjalla um öryggismál, ekki síst út frá þeirri áherslu sem ég lagði þá um undirgöng og veggirðingar.

Jú, ég samþykkti frumvarp hæstv. fjármálaráðherra en það má líka leggja vegamálum fé með framlagi á fjárlögum, ekki bara þeim tekjustofnum, og ég fjallaði um það að endurskoða þyrfti tekjugrunn vegagerðar á Íslandi. Hitt er óumflýjanlegt að fjalla líka um það, eins og ég gerði í minni ræðu, að takmarkað fjármagn er til á Íslandi og við verðum að nýta það sem best.

Forgangsröðun mín er alveg skýr. Ég er fyrst og fremst að beina því til umhverfis- og samgöngunefndar að hún skoði það að komast út úr þeirri einangrun, eða vandamáli eða pattstöðu eða hvað við köllum það, sem Vestfjarðavegur er í orðsins fyllstu merkingu og að leita leiða til að færa til áherslur innan þessarar þingsályktunartillögu. Ég ætla að vona að á næstu árum getum við lagt enn meiri fjármuni til vegamála en við getum í dag og skoðað þá tengivegina sérstaklega. Það eru mínar áherslur.