143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans framfaraglöðu ræðu. Ég get þó ekki verið sammála honum um að kalla eftir fjárframlögum úr ríkissjóði til hafnarinnar í Helguvík. Þar hefur farið fram algjörlega glórulaus skuldsetning. Þeir sem tekið hafa þær ákvarðanir verða að axla ábyrgðina sem því fylgir og geta ekki vænst þess að fá framlög úr ríkissjóði til þess að kaupa sig út úr því.

Hitt þykir mér forvitnilegt sem hv. þingmaður segir um höfnina í Þorlákshöfn, vegna þess að þar hafa menn jú lengi vonast eftir því að geta tekið við stærri skipum en raun varð á. Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann: Þegar hann segir að það sé hægt að gera höfnina aðgengilega 200 m löngum skipum fyrir ótrúlega lítinn pening, hvað er þá ótrúlega lítill peningur? Hvaða stærðir erum við að tala um í því sambandi?

Aðeins varðandi Landeyjahöfn og nýja ferju. Skildi ég hv. þingmann rétt að hann teldi að ná þyrfti betri árangri í því að bæta höfnina áður en ráðist yrði í kaup á nýrri ferju? Bara til skýringar, hver er afstaða hv. þingmanns?

Að lokum um almenningssamgöngurnar á Suðurnesjum, er þingmaðurinn að kalla eftir auknum fjármunum í það verkefni á áætluninni? Hvaða fjárhæð erum við þá að tala um í því sambandi sem hann gerir athugasemdir við hér í umræðunni?