143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningar hv. þingmanns. Varðandi Helguvík er það þannig að þegar farið var af stað með framkvæmdir var auðvitað gert ráð fyrir að í kjölfarið fylgdi mikil uppbygging stóriðju á svæðinu, sem varð því miður ekki, hrunið kom í veg fyrir það. Síðan var ekkert gert í þeim málum en sveitarfélagið hefur setið uppi með skuldirnar af framkvæmdunum sem farið var af stað með. Það er auðvitað mikill skaði fyrir sveitarfélagið og við þurfum einhvern veginn að koma að því.

Varðandi Þorlákshöfn er það afar áhugavert verkefni. Suðurvarargarðurinn er bara nýttur að hálfu vegna þess að innst inni í pyttinum er grunnt og þar er brunaefni sem hægt er að grafa upp með gröfu. Með þessu móti er hægt að auka viðlegu við kantinn þannig að allt að 200 m skip gætu komist þarna að og með því að taka norðurgarðinn í burtu myndast þar mikið svigrúm til þess að snúa skipum. Þá er þessi höfn með stærstu höfnum landsins og tekur allt að 200 m skip og eins og ég segi eru bara fá skip sem eru yfir 200 m sem koma til landsins.

Varðandi Landeyjahöfn er það skoðun mín og margra annarra að ef brotið fyrir utan höfnina og sandburðurinn er of mikill þá skiptir engu máli hvað við smíðum margar ferjur, það fer ekkert skip inn í höfnina nema hún virki. Það er afar mikilvægt að við tryggjum það og ég held að fyrst hæstv. innanríkisráðherra ætlar að fara í líkanaprufur þá finnum við kannski leiðina til þess að bæta höfnina, það er alveg gríðarlega mikilvægt.

Varðandi almenningssamgöngur á Suðurnesjum vil ég segja það að við erum ekki að óska eftir auknu fjármagni, öðru nær. Við teljum að samgöngur á Suðurnesjum megi reka algjörlega sjálfbært og án framlaga frá ríkinu eða nota þá peninga á öðrum svæðum ef við fáum að halda Reykjanesbrautinni. Það er mikilvægt. Það er mikil lífæð fyrir okkur (Forseti hringir.) og gæti gefið sveitarfélögunum tekjur til þess að reka sjálfbærar samgöngur á Suðurnesjum.