143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:51]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans og yfirferð, sem var fyrst og fremst yfir hans kjördæmi, Suðurkjördæmi geri ég ráð fyrir. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni varðandi mikilvægi uppbyggingar fjarskiptainnviða á Íslandi. Það er ótvírætt það sem skiptir máli ef landið á að haldast í byggð, ekki síður en vegaframkvæmdir.

Einnig vil ég taka undir með hv. þingmanni um uppbyggingu þriggja fasa rafmagnsins. Til að það gangi upp þarf náttúrlega að efla byggðalínuna, þ.e. að leggja rafmagn byggðahringinn, ekki yfir Sprengisand eða einhverjar aðrar leiðir. Það þarf að leggja almennilega byggðalínu, hún á að fara byggðahringinn, og þá getum við einmitt komið þriggja fasa rafmagni í byggðir landsins, sem er öllum byggðum til hagsbóta og til uppbyggingar.

Ég ætlaði að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar og var búinn að rita það strax hér á blað: Hví ætti að setja fé í Helguvík? Það er í raun engin ástæða til eins og hefur komið fram í umræðunni. Sveitarfélagið réðist að eigin frumkvæði í þessar framkvæmdir og mér finnst ekki rétt að ríkið hlaupi þar undir bagga. Þær framkvæmdir sem mögulega verði gangi í gegn og standi undir þeirri uppbyggingu sem er í Helguvík og það hvernig málum þar er fyrir komið er fyrst og fremst á pólitíska ábyrgð bæjarstjóra þar. Ég sé ekki ástæðu til þess að hið opinbera, ríkið, hlaupi þar undir bagga.

Mig langar líka til þess að hnykkja á því að Vaðlaheiðargöng eru ekki einkaframkvæmd. Þetta er fyrirtæki sem er algjörlega í opinberri eigu, er með ríkisábyrgð og fór hér í gegnum nálarauga fjárlaganefndar tvisvar ef ekki þrisvar upp á að fá þá ríkisábyrgð. Það færir okkur heim sanninn um að það er erfiðara að fá einkaframkvæmdir af stað ef menn eygja ekki gróðavon af þeim, sem aftur undirstrikar að einkaframkvæmdir snúast auðvitað um hagnaðarvon eða mögulegan gróða. Ég hef áhyggjur af því ef það á að vera hvatinn í uppbyggingu vegakerfis okkar vegna þess að þá er ljóst að ýmis svæði verða út undan.

Að lokum er kannski rétt að spyrja: Sér hv. þingmaður fyrir sér skemmtiferðaskip í Þorlákshöfn?