143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:56]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svörin.

Varðandi Spöl er rétt að kannski má líta á það sem eðlilega ávöxtun, þó að ég hafi ekki rýnt ársreikningana nákvæmlega, þegar göngunum verður skilað. En vandinn er sá að þeir hafa ekki endilega sérstakan áhuga á að skila göngunum. Þeir eru að tala um að tvöfalda þau, þeir vilja gjarnan halda þessari ágætismjólkurkú nálægt sér, mér heyrist það alla vega á umræðunni. Það er því ekki endilega þannig að göngunum verði skilað í bráð.

Varðandi Helguvík og Bakka þá þakka ég þingmanninum fyrir að draga einmitt fram þau ánægjulegu tíðindi sem hafa orðið á Bakka með fjárfestingarsamninginn. En ég spyr: Er það ekki einmitt málið? Hefði ekki slíkur fjárfestingarsamningur þurft að liggja fyrir í Helguvík áður en þær framkvæmdir fóru af stað? Einhvers konar samningur hefði þurft að liggja fyrir, samningur sem hefði öllum verið opinn til rýningar og skoðunar áður en til þessara hafnarframkvæmda kom og áður en til skuldsetningarinnar kom. Það hefði ég talið eðlilegra. Ég fagna því auðvitað að Bakki og Húsvíkingar og þeir ágætu íbúar í Norðurþingi hafi þó farið rétta leið — sem tók þá töluverðan tíma vel að merkja.