143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[19:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hér á höfuðborgarsvæðinu hafa peningar verið settir í almenningssamgöngur, gert var samkomulag um að setja frekar peninga í þær en fresta í staðinn vegaframkvæmdum. Nú sýnist mér vera að koma upp tillögur um að fara í einkaframkvæmd með Sundabraut. Þetta er leiðandi spurning: Gæti þingmaðurinn verið sammála mér um að verið sé að grípa inn í það hvernig verið er að reyna að stýra þessu og breyta því hvernig samskipti fólks eru með samgöngum, grípa inn í það sem verið er að reyna að gera með því að efla almenningssamgöngur á svæðinu, þ.e. ef við komum allt í einu með einkaframkvæmd með Sundabraut, sem er út af fyrir sig forgangsröðun sem ég skil nú ekki alveg.

Hv. þingmaður nefndi innanlandsflugið og það er hárrétt sem þingmaðurinn segir — við græðum allt of litla peninga á ferðamönnum sem koma hingað, það er nú alltaf að sýna sig — að við græðum á að fá ferðamenn, við erum með miklu fleiri veitingahús en við gætum haft, við erum með betra millilandaflug en við gætum haft og þar fram eftir götunum. En hvernig heldur hann að heppilegast væri að efla innanlandsflugið svo að það nyti sín í því að dreifa farþegum um landið þegar innanlandsflugið er svona aðskilið frá millilandafluginu?